Hlýðum Víði og notum grímu
Hlýðum Víði og notum grímu

Viktoría Rós Arnarsdóttir skrifar.

Hvar er sólin? Það er svo kalt... Sumarið var fínn tími, smá hvíld frá Kóvinu og ég, sem nýnemi, bjartsýn fyrir skólabyrjun minni í MA. Fín byrjun. Máttum mæta í skólann flest alla daga þó að erfitt væri að kynnast nýjum bekkjarfélögum með metra á milli. En nú er Covid komið aftur af fullum krafti og hefur áhrif á allt og alla.

Endalausar takmarkanir

Nám og félagslíf framhaldsskóla hefur mikið breyst vegna heimsfaraldursins og eins og staðan er í dag hefur námið færst alfarið í fjarkennslu. En skítt með námið. Hvað með félagslífið? Félagslífið í MA er þekkt um allt land fyrir að vera öflugt og til fyrirmyndar en er búið að taka mikið högg út af Covid.

Nemendur í MA eru að reyna að vera bjartsýnir og aðlagast ástandinu á meðan Covid versnar og sífellt fleiri sýkjast af veirunni. En MA-ingar reyna að gera það besta úr slæmum aðstæðum. Til dæmis var busaíþróttamótinu, sem er haldið á hverju ári í byrjun skólaárs, breytt í tölvuleikjamót og LMA hefur sent út kynningarmyndband um sýningu vetrarins. Ekkert getur stoppað þann metnaðarfulla hóp.

Tæpur mánuður til stefnu

Margir voru bjartsýnir að við næðum að halda árshátíðina okkar þann 1. desember. Nokkuð öruggt er að ekki verður af henni þetta árið. Árshátíð MA er mjög stór hátíð og koma þá yfirleitt saman í kringum 1000 manns. Það er u.þ.b. 990 manns of margir miðað við gildandi takmörkun á samkomum í landinu. En við getum auðvitað haldið áfram að vera bjartsýn og gert allt sem við getum til þess að láta Covid hægja á sér. Handþvottur og spritt, fjarlægð upp á tvo metra og grímunotkun þótt að þær séu bæði óþægilegar og ekkert sérstaklega smart. Ef allir hlýða Víði þá kannski, bara kannski getum við haldið einhvers konar árshátíð.

Ég er nýnemi og það er stórt stökk að koma frá grunnskóla yfir í framhaldsskóla. Covid gerir þetta erfiðara en það ætti að vera en kennarar og nemendur reyna að gera sitt besta í leiðinlegum aðstæðum. Ég get ekki beðið eftir að fá að kynnast MA eins og skólinn er í raun og veru og mæta á árshátíð grímulaus.

Umfjöllun Viktoríu er hluti af verkefni í menningarlæsi á fyrsta ári. Sjá Nemendur þefa uppi fréttir í MA.