- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Dagur íslenskrar tungu var á laugardaginn. Til þess að minnast hans var kallað á Sal í MA í dag, þar sem Eyrún Huld Haraldsdóttir kynnti dagskrá sem íslenskukennarar höfðu undirbúið.
Í upphafi fór Bjarni Karlsson formaður skólafélagsins Hugins með Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, með svolítilli hliðsjón af eftirminnilegum flutningi Hunds í óskilum á því mikla verki, og lék með á blokkflautu, en Stefán Oddur Hrafnsson lék undir á bassa. Að því loknu voru kallaðar upp á svið stúlkurnar sem unnu til viðurkenninga á dögunum fyrir fegursta íslenska orðið og þær hylltar.
Þungamiðjan í dagskránni var rödd ungra skálda, tveggja í nemendahópnum og tveggja nýfarinna á vit framtíðarinnar. Fyrst á dagskrá var Gréta Kristín Ómarsdóttir, stúdent 2010, skáld og nemandi við Listaháskóla Íslands. Hún flutti nokkur ljóð úr væntanlegri ljóðabók og birtist áheyrendum á tjaldi þar sem hún sat í Reykjavík og hafði brugðið sér úr tíma. Lestri hennar og annarra var vel fagnað. Því næst komu fram tveir efnilegir höfundar úr röðum núverandi nemenda. Tómas Bjarnason í 4. bekk D las smásögu sem hann hefur nýlega saman sett og Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir í 4. bekk B flutti hugleiðingu sína. Að lokum steig á stokk Darri Rafn Hólmarsson, stúdent 2011 skáld og tónlistarmaður, nemi við Háskóla Íslands og flutti texta við væntanlegt lag sitt Um dimman dal.
Þetta var myndarleg og vönduð dagskrá og öllu þessu unga listafólki til mikils sóma – sýndi og sannaði hvernig málið getur leikið listilega á ungum tungum.