- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Dagur íslenskrar tungu er í dag og þess var minnst í Menntaskólanum á Akureyri í morgun. Hringt var á Sal, Eyrún Huld Haraldsdóttir námsgreinarstjóri í íslensku ávarpaði samkomuna og minntist dagsins og hvatti viðstadda til að gæta tungunnar. Hún benti líka á leik með gula miða á gleri Bókasafns MA og íslenskukennarar gripu miða og upplýstu um nokkur dæmi um eftirminnilegasta, sérkennilegasta og/eða fallegasta íslenska orðið.
Að þessu loknu var handhafi verðlauna Norðurlandaráðs fyrir ungmennabókmenntir, Arnar Már Arngrímsson, okkar maður, hylltur. Ásamt honum lásu fjórir nemendur upp úr verðlaunabókinni Sölvasögu unglings, þau Edda Sól Jakobsdóttir, Elmar Blær Arnarsson, Ingvar Þóroddsson og Valgerður María Þorsteinsdóttir.
Að lokum var sýndur þáttur úr sjónvarpsþáttaröðinni Friends. Hann var að því leyti óvenjulegur að íslenskukennarar skólans höfðu talsett hann. Vakti það nokkra kátínu, en Ísland er reyndar meðal fárra Evrópuþjóða sem ekki sýna slíkt sjónvarpsefni að staðaldri talsett.