Síðasti skóladagur vorannar 2008 var á föstudag. Kennt var fyrstu 2 tímana en eftir þð hófst kveðjudagskráin. Fjórðubekkingar fóru á Sal í Gamla skóla og sungu þar lengi vel, en smátt og smátt fækkaði þeim því hver bekkurinn á fætur öðrum var tekinn burt, bundið var fyrir augu fólks og nemendur neðri bekkja báru það út úr húsi. Það var unga fólkinu misþungt verkefni, sem sjá má á myndum. Úti beið þrautabraut, þar sem vatn var af gnægðum í góðviðrinu. Þrautagangan endaði á stökki í svolitla plastsundlaug og má segja að sumir hafi hlotið meira volk en aðrir. Að þessu loknu tóku fjórðubekkingar að klæðast búningum sínum og að lokinni grillveislu á flötinni sunnan við Hóla kvöddu þeir hóp kennara og starfsfólks í Kvosinni og héldu síðan á dráttarvélavögnum um bæinn og heimsóttu fleiri kennara. Um kvöldið var vegleg veisla í Kvosinni í boði skólafélagsins Hugins fyrir fjórðubekkinga og kennara. Þar var dagskrá skemmtiatriða sem lauk á safni mynda úr sögu bekkjarins. Í blálokin var svo frumsýnd mynd, sem nemendur gerðu við lag og ljóð Bjarna Hafþórs Helgasonar, Emma. Kór MA söng lagið í útsetningu Margot Kiis og nemendur léku söguna sem lesa má úr textanum. Dimissio fór hið besta fram og það var góður svipur á hátíðinni, en lokastundin í Kvosinni var tilfinningarík, þegar þeir sem nú kveðja fundu endalok skólaverunnar þrýsta að sér á viðkvæmum stöðum.

.