Ásmundur Einar Daðason og Karl Frímannsson slá á létta strengi á suðurlofti Gamla skóla
Ásmundur Einar Daðason og Karl Frímannsson slá á létta strengi á suðurlofti Gamla skóla

Ljósmynd sem birtist á fésbókarsíðu skólans í vikunni hefur vakið nokkra athygli – og ekki að ástæðulausu. Myndin fangar skemmtilegt augnablik þar sem Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Karl Frímannsson skólameistari MA hverfa aftur í tímann í sögulegri herbergiskytru, n.t.t. í einu af gömlu heimavistarherbergjunum á suðurlofti Gamla skóla. Ráðherrann heimsótti MA á dögunum, spjallaði við nemendur og starfsfólk og skoðaði skólann hátt og lágt. Myndina af ráðherra og meistara þar sem þeir bregða sér í hlutverk íbúa heimavistarinnar tók Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari.

Á myndinni sést Ásmundur hvíla lúin bein á gömlum og að því er virðist frekar óþægilegum bekk undir súð og Karl sitjandi á stól sem muna má fífil sinn fegurri. Gamlar skruddur í hillu, tau og fallegir jakkar í jarðarlitum í bland við ljósgrænan retro-lit veggjanna fanga tíðaranda liðinna tíma á heimavist skólans. Myndin kallar fram vangaveltur um lífið á vistinni á fyrri hluta 20. aldar. Vel fer á með herbergisfélögunum tveimur og þeir virka spenntir. Eins og eitthvað skemmtilegt sé í aðsigi. Skíðaferð í Útgarð. Eða dansleikur á Sal. Kannski er prófum lokið og jólafrí framundan. Ef veggirnir gætu talað.

Bygging nýrrar heimavistar hófst í ágúst 1946. Fyrsti áfanginn var tekinn í notkun árið 1949 þegar stúlkur fluttu inn á svokallaðar Kvennavistir. Piltarnir bjuggu áfram í Gamla skóla. Stígurinn á milli kynjaskiptra heimavistanna fékk nafnið Ástarbraut. Nýja heimavistin stækkaði jafnt og þétt næstu ár. Brynleifur Tobíasson, settur skólameistari, ávarpaði nemendur við skólasetningu 2. október 1951. Nýtt og langþráð húsnæði í heimavistarhúsinu var vígt við sama tækifæri, eldhús, býtibúr og borðstofa fyrir 180 manns. Allmörg ár áttu þó eftir að líða áður en síðustu íbúar í Gamla skóla pökkuðu föggum sínum í hinsta sinn og yfirgáfu gömlu vistina fyrir fullt og allt.

Þegar undirritaður sá umrædda mynd af ráðherra í rekkju, reikaði hugurinn til atburða sem gerðust um það leyti sem Brynleifur lagði drög að setningarræðu sinni. Í september 1951 ferðaðist Sveinn nokkur Björnsson til Akureyrar. Hann var þá forseti Íslands. Ef marka má greinarstúf í Morgunblaðinu dvaldist forsetinn í Menntaskólanum í það minnsta næturlangt á meðan hann var á Akureyri. Ekkert kemur fram um hvar í skólanum forsetinn gekk til náða rétt um tveimur vikum áður en Brynleifur Tobíasson setti skólann og nemendur og starfsfólk mætti til starfa.

Líkast til hafa nokkrir náttstaðir staðið forsetanum til boða. Ef hann hefur kosið nútímaþægindi gæti hann hafa gist í nýrri heimavist skólans. Ekki amalegt að hvílast í hugarsmíði húsameistara Guðjóns Samúelssonar. Stúlkurnar rétt ókomnar og því nóg pláss. Mögulega fékk hann að sofa í rúmi skólameistara í íbúð hans í suðurenda skólans þar sem meistari var fjarverandi á meðan dvöl forsetans á Akureyri stóð. Bandaríska utanríkisráðuneytið hafði boðið Þórarni Björnssyni, þáverandi skólameistara, í þriggja mánaða ferðalag vestur um haf til að kynna sér uppeldis- og skólamál. En kannski krafðist Sveinn hvorki nútímaþæginda né þess að hafast við í húsakynnum meistaranna. Kannski hvíldi hann sín lúnu bein í gamalli herbergiskytru með sögu, á rúmbekk undir súð, innan um gamlar skruddur. Ef ljósgrænir veggir gætu talað.

 

Stuðst var við nokkur vel valin dagblöð og tímarit frá sept. – nóv. 1951 sem og bókina Saga Menntaskólans á Akureyri 1880-1980.