Nemendur á Suðurvistum haustið 2024
Nemendur á Suðurvistum haustið 2024

Á þessu orðum hefst bréf 16 ára stúlku til jafnaldra síns sem bjó á Suðurvistum Menntaskólans á Akureyri. Bréfið er ritað haustið 2024 og er hluti af vinnu nemenda í ensku á fyrsta ári. Viðtakandi bréfsins var nemandi skólans í upphafi síðustu aldar þannig að óvíst er hvort það nái nokkurn tímann á leiðarenda. Það tekur nýnema ekki langan tíma að finna fyrir væntumþykju í garð Gamla skóla. Það er eitthvað heillandi og fallegt við að stunda nám í sama húsi og jafnaldrar þeirra gerðu fyrir rúmri öld.

   Ég fékk tækifæri til að fara upp á Suðurvistina um daginn og sjá gamalt heimavistarherbergi. Ég var steinhissa á hversu ódýr leigan var þá miðað við það sem ég er að borga fyrir heimavistina í dag.

   Ætli við hefðum orðið vinkonur ef við værum hér saman árið 2024? Lyktar Gamli skóli kannski eins, svona þung lykt af ryki sem þú ert eiginlega hrædd um að setjist inn í lungun?

Í síðustu viku læddust tveir bekkir á fyrsta ári upp á Suðurvistir í fylgd kennara, skoðuðu heimavistarherbergi, kennslugögn sem hætt er að nota og nutu útsýnisins yfir fallegu haustlitina og Pollinn. Með því að píra augun gátu þau lesið það sem fyrrverandi nemendur höfðu skrapað í viðinn. Með því að leggja hendurnar á gólffjalirnar mátti finna sama nístandi kuldann og fyrir 100 árum. Ef gægst var undir rúm mátti líka sjá næturgagn sem vakti mikla lukku.

   Allir nemendur þurftu að vera komnir á fætur og búnir að snyrta sig kl. 08:30, ég get ekki ímyndað mér hvernig það var að vera með sömu dagskrá og allir hinir og þurfa að nota sameiginlegt baðherbergi.

   Svo er líka skrítið að hugsa til þess að þú varst á vist og gast ekki talað við foreldra þína og fengið hjálp við heimavinnuna. Stundum sástu kannski ekki foreldra þína mánuðum saman út af veðri og komst kannski ekki heim um jól!

   Það sem mér fannst áhugavert við þinn tíma á vistinni var að skólameistari mátti bara æða inn á þig hvenær sem hann langaði!

Öruggt má telja að vistarbúar fyrir 100 árum biðu sumir í óþreyju eftir bréfum og fréttum að heiman. Núverandi nýnemar bregðast þeim ekki en fréttirnar koma kannski úr óvæntri átt.

   Ég er að skrifa þér úr gömlu byggingunni, hún stendur enn og er í fínu standi!

   Flest geta ekki lifað án internets í dag sem er skrítin tilhugsun því á þínum tíma var alls ekkert internet.

   Það var reiknivél upp á háaloftinu í Gamla skóla sem var svo stór að ég get ekki ímyndað mér að það sé hægt að halda á henni. Í dag setjum við reiknivélina bara í vasann.

   Enn eru flest próf á pappír og það er besta mál, við verðum að halda í þetta gamla.

   Ef þú bjóst við að nú á dögum yrðu fljúgandi bílar þá verð ég að segja að slíkt er of óöruggt ennþá fyrir almenning.

   Dömur mega gera allt núna líka það sem þeim kom kannski ekki við á þínum tíma.

Eitt eiga ungmennin sameiginlegt þó öld skilji að og það er sú tilfinning að búa í hverfulum heimi sem stundum illskiljanlegur.

   Mér finnst sem mannkynið hafi gert of mikið, fundið upp of mikið, uppgötvað of mikið.

   Við höfum nú búið til þá hugmynd að því fleiri sem skoða okkur og fylgjast með okkur eða láta sér vel líka þá séum við eitthvað betri.

   Tæknin hljómar kannski vel en við erum að menga andrúmsloftið og vopn eru nú miklu hættulegri. Sjúkdómar dreifast óhugnalega hratt vegna ferðalaga okkar. Farðu varlega.

   Síminn minn er eins og auka heili.

Sem betur fer er það nú svo að unga fólkið nú eins og þá áttar sig á samhengi hlutanna og því sem gerir okkur að manneskjum. Finna fyrir tengingu við jafnaldra sína og benda á það augljósa.

   Það sem hefur ekkert breyst síðan þú varst hér er að það er enn er vinskapur og ást.

   Þrátt fyrir allar þessar breytingar er hjarta skólans það sama. Staður lærdóms, þroska og vináttu.

   Ég er þakklát og líka vongóð um framtíðina.

Gamli skóli ber aldurinn afskaplega vel. Það eru nemendur og kennari sammála um. Skólaspjöldin sem prýða gangana okkar geta verið innblástur hugleiðinga af ýmsu tagi. Hvar voru stúlkurnar í upphafi aldarinnar? Hvers vegna er húfan skökk á kollum stúdenta árum saman? Hvernig fóru stúlkurnar að því að ná svona fallegum krullum þegar ekkert var krullujárnið? Ætli einhver hafi komið á hesti í skólann? Epískt dæmi sko.
Til hamingju með daginn Gamli skóli okkar allra…

   – ég vona að þú hafir elskað MA jafn mikið og ég geri -

 

Hildur Hauksdóttir, 1T og 1F