Snorri Steinberg Guðvarðarson málari
Snorri Steinberg Guðvarðarson málari

Hjónin Snorri Steinberg Guðvarðarson og Kristjana Agnarsdóttir eru málarar. Þau sérhæfa sig í viðhaldi á friðuðum húsum, ekki síst kirkjum. Vinna þeirra er þó ekki eingöngu bundin við guðshús. Snorri og Kristjana hafa um nokkurt skeið sinnt viðhaldi í Menntaskólanum á Akureyri þ.e. í Gamla skóla. Fréttaritari ma.is kom auga á Snorra í kaffipásu nú á dögunum og hugsaði sér gott til glóðarinnar. Nú þegar stund er milli stríða hjá málurunum gefst tækifæri til að grípa þau hjónin glóðvolg og rekja úr þeim garnirnar. Hvað eru þau að gera? Hvernig fer vinnan fram? Þegar fréttaritara bar að garði var Kristjana að sinna öðrum erindagjörðum svo Snorri varð fyrir svörum.

Gamli skóli er elsti hluti skólabyggingarinnar, reistur árið 1904. Byggingin er friðuð samkvæmt þjóðminjalögum. Þannig segir Snorri húsið lúta sömu lögmálum og önnur friðuð hús og að ekki sé sama hvernig viðhaldi á þeim sé háttað. „Það er ekki hægt að fara út í búð og kaupa næstu dós af vatnsþynnanlegri málningu“ segir Snorri þar sem hann situr með undirrituðum við eldhúsborðið í Gamla skóla og fer yfir verklagið.

Hvað er langt síðan að þið hófuð að sinna viðhaldi í Gamla skóla?

Ég er búinn að vera hérna síðan fyrir aldamót. Reyndar byrjaði ég á að mála hér með pabba gamla sem var málari líka. Þá erum við að tala um þegar ég var sjálfur í námi hérna 1969 – 1973. Ég þori nú varla að segja frá því en ég sofnaði einu sinni uppi á þaki. Pabbi var í stiga hinum megin þar sem mesta málningarvinnan fór fram. Ég þurfti að bíða eftir honum og steinsofnaði. Það er annað mál. Ég reyni að vera hérna sem mest þegar enginn er í húsinu, yfir sumarið og svo eyddi ég jólafríinu mínu hér um síðustu jól. Við vorum þá að mála hurðir og vorum eðlilega alveg í friði til að sinna því. Þá var enginn á ferli hérna sem var gott því það sem við vorum að mála tók tvo daga að þorna. Við getum eiginlega ekki talað um verklok hér, við vinnum þetta í skömmtum og skammtarnir eru alltaf til staðar. Sem dæmi er ákveðin stofa hérna í húsinu sem þarf að laga svolítið til í og mála. Verkefnið hefur verið á dagskrá í tvö ár en verður að bíða betri tíma. Það verður alveg áskorun að taka þessa stofu en þeim mun meira gaman þegar að því kemur.

Segðu mér aðeins frá því hvernig þið farið að því að meta hvaða lit skal nota fyrir friðuð hús eins og Gamla skóla.

Þetta þarf að vera olíumálning og réttur litur. Við vinnum mikið með terpentínu og olíu og oftast er þetta upphaflegur litur hússins sem við erum að vinna með. Við getum yfirleitt grafið upp hverjir þeir eru með því að skafa okkur inn í innsta lag á þeim flötum sem eru alveg frá upphafi. Oft eru þetta fjalir sem hafa verið teknar og smíðaðar upp á nýtt. Þá er gott fyrir okkur að komast í þær, skafa sig í rólegheitum niður og enda jafnvel á fínum sandpappír og örlítilli olíu. Þurrka olíuna af og þá sjáum við breytta litinn eða sem næst því. Við búum ekki svo vel að hafa tæki sem segja okkur hver litasamsetningin er og treystum því að miklu leyti á augun.

Hvaða verkefni ertu að sinna þessa stundina?

Ég er að vinna við hurð á austurhlið skólans, alveg syðst. Þetta er í raun og veru „blinduð“ hurð sem var inn til skólameistara á sínum tíma. Nú er gólfið þarna inn við orðið slétt, búið að kippa hurðinni úr sambandi og þjónar hún engum tilgangi nema hvað útlitið snertir. Það er búið að gera hurðina upp og ég er að ljúka við að fara yfir bletti og svo verður heilmálun á henni, vonandi á morgun ef veðrið verður gott. Svo á eftir að mála gluggasyllur í Móvestí sem svo var stundum kölluð. Þar rökræddu gjarnan þeir Erlingur[Sigurðarson] heitinn, Sverrir Páll [Erlendsson], Valdimar [Gunnarsson] og aðrar hetjur. Þar vantar ennþá nokkra hluti áður en hægt er að fara af stað. Það verða líklega síðustu verkin okkar hérna núna.

Er þetta skemmtilegt starf?

Alveg gríðarlega skemmtilegt.