- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Næstkomandi föstudag, 4. október, hittist allt starfsfólk framhaldsskólanna á Norðurlandi eystra á samstarfsfundi í Ólafsfirði. Bróðurpart dagsins eru fjölmörg erindi og kynningar sem kennarar og annað starfsfólks skólanna sér um, nokkurs konar menntabúðir þar sem hægt er að fara á milli stöðva og læra af kollegum. Kynningarnar spanna víðfeðmt svið og minna á þann fjölbreytileika sem er í námi og kennslu í framhaldsskólunum; sjósund, vélmennaforritun og heimasmíðuð módel, núvitundarfræðsla og kynheilbrigðisumræða og ,,listin að láta sér leiðast", rætt um gamlar og nýjar aðferðir til kennslu og náms í tilvistaráfanga - svo einhver dæmi séu tekin. Í lok dags eru fagfundir þar sem kennarar í sömu/svipuðum greinum hittast og bera saman bækur sínar. Einnig verður dagskrá fyrir annað starfsfólk. Engin kennsla verður því í MA þennan dag, en nemendur í 3. bekk fara í námskynningu í HA og einnig verður menningarferð til Reykjavíkur í umsjón skólafélagsins. Lagt verður af stað kl. 12 á föstudeginum frá Heimavistinni og komið heim á sunnudegi. Gist verður í Verzlunarskólanum og ýmis dagskrá í boði. Nokkrir kennarar munu fylgja hópnum og vera þeim til halds og trausts. Það eru þau Hólmfríður Jóhannsdóttir, Jóhann Sigursteinn Björnsson, Kristinn Berg og Unnar Vilhjálmsson. Stjórn skólafélagsins er líka á vaktinni.