Skólameistari telur bíla á bílastæði MA.
Skólameistari telur bíla á bílastæði MA.

Evrópsk samgönguvika hefst í dag og stendur til 23. september. Markmiðið með henni er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft.

Bíllausi dagurinn er 22. september og þá, sem endranær, eru öll hvött til að nota aðra samgöngumáta en bíla. Karl Frímannsson skólameistari og Bjarni Jónasson umhverfisfulltrúi fylgjast með umferðinni inn á bílastæði MA í nokkra daga, telja þá sem koma á bíl í skólann, með strætó eða gangandi. Tæp 52% nemenda eru á bílprófsaldri (tölur frá 1. september). Alls hafa 47%-62% þeirra komið á bíl í skólann, ýmist verið skutlað, verið samferða öðrum eða komið á eigin bíl þessa morgna, sem talning hefur farið fram. Það eru 24%-32% af nemendafjöldanum svo það eru sem betur fer líka mörg sem koma með öðrum hætti í skólann. Aðalmálið er svo að hugsa hvernig hægt er að breyta samgönguvenjum til lengri tíma, en ekki bara einn ,,bíllausan“ dag.

Langflest starfsfólk skólans býr mjög skamman veg frá skólanum og koma flest gangandi, hjólandi eða með strætó í skólann. Þau sem venjulega koma á bíl eru hvött til að velja annað slagið aðra samgöngumáta t.d. tvo daga í viku ef hægt er.

Athygli verður vakin á þessu verkefni á samfélagsmiðlum skólans, ekki síst í dag og bíllausa daginn 22. september.