Leikfélag Menntaskólans frumsýndi Rómanoff og Júlíu árið 1969
Leikfélag Menntaskólans frumsýndi Rómanoff og Júlíu árið 1969

Félagslíf í MA var í miklum blóma fyrir 50 árum. Óhætt er að segja að þorri nemenda árið 1969 hafi verið líflegur. Hið minnsta fjögur dansiböll voru í boði fyrir nemendur skólans frá bóndadegi til þorraþræls. Þar af lék hljómsveitin O´Hara fyrir dansi á þremur þeirra. Ýmislegt fleira dreif á daga menntskælinga í þessum fjórða mánuði vetrar samkvæmt gömlu norrænu tímatali. Upphaf nýrrar annar gaf þó ekki ástæðu til bjartsýni ef marka má annál sem birtist í skólablaðinu Muninn í mars 1969.

Janúar var afar leiðinlegur að vanda, prófin létu ekki á sér standa en inflúensan brást, þegar mest lá við. Hreystin geislaði jafnt af nemendum sem kennurum.

Allt stóð þetta til bóta með tilkomu þorrans. Bóndadag bar upp á föstudaginn 24. janúar og markaði upphaf mikillar grósku í félagsstarfi skólans. Meðal viðburða má nefna kynningu Braga Sigurjónssonar á Alþýðuflokknum, ræðu séra Ólafs Skúlasonar í tilefni bindindisdagsins og kvöldvöku þar sem Sigrún Harðardóttir söng við undirleik Ingimars Eydal. Þorraþræll heilsaði og þorra nemenda lauk með íþróttakeppni og dansleik. Og kennarar og nemendur voru í jötunmóð.

Kennarar léku mjög grófan handknattleik, enda höfðu dómarar leiksins, þeir Sigurgeir Hilmar og Guðjón Kristjánsson, ekki næga stjórn á honum. Annars er það mikið áhyggjuefni, hve sportidíótí er almennt meðal kennara ... Um kvöldið var dansleikur í Sjálfstæðishúsinu og olli það uppreisn á kvennavistum en stúlkur sögðu sig úr lögum við vistina og fóru í Húsið.

Þrátt fyrir harmakvein á þorraþræl blómstraði félagslífið áfram í skólanum. Leikfélag skólans frumsýndi Rómanoff og Júlíu í leikstjórn Þórunnar M. Magnúsdóttur á konudaginn. Gróskan hélt áfram á góu.

 

Heimild: Muninn 41. árgangur, 3.tbl.