Hildur og Maija á góðri stund í Liverpool. Mynd: Maija Kalliokoski
Hildur og Maija á góðri stund í Liverpool. Mynd: Maija Kalliokoski

 

Hildur Hauksdóttir og Maija K. Kalliokoski, enskukennarar við Menntaskólann á Akureyri, sóttu ráðstefnu Alþjóðasamtaka enskukennara í Liverpool vikuna 1. – 4. apríl sl. Ráðstefnuna sóttu á fjórða þúsund gesta hvaðanæva úr heiminum, frá rétt um 100 löndum. Boðið var upp á fimm lykilfyrirlestra, tæplega sex hundruð mál- og vinnustofur og sýningu þar sem u.þ.b. 50 samtök eða fyrirtæki fengu inni með bása í ráðstefnuhöll Liverpool-búa. Auk þess voru alls konar uppákomur í boði og námskeið. Ráðstefnan hafði enga yfirskrift eða þema segja þær Hildur og Maija. Engu að síður mátti greina tvö leiðarstef, annars vegar flóttamannaáskorunin sem heimurinn stendur andspænis og hins vegar LBGQTIA sem má útleggja sem ólíkar kyngerðir.

Hildur og Maija áttu tvo góða daga á ráðstefnunni en að sögn þeirra hefði verið ákjósanlegra að fá einn dag til viðbótar. Dagarnir hófust á lykilfyrirlestrum dagsins sem þær stöllur sóttu saman en svo skildu leiðir þar sem þær sóttu ólíkar málstofur/vinnustofur. Á ráðstefnunni hittu þær fulltrúa frá nokkrum stórum bókaútgáfufyrirtækjum á sviði námsgagnagerðar í ensku og fengu sýnishorn af nýju, spennandi námsefni. Þá hittu þær aðra kennara frá Íslandi sem sóttu ráðstefnuna.

Hildur og Maija eru ánægðar með ferðina. Þær segja Liverpool vera áhugaverða borg. Að lokinni skipulagðri dagskrá sótti Maija listasöfn og Hildur týndi sjálfri sér í Cavern-hverfinu. Skipulagið var gott, alls staðar fólk til að aðstoða enda höllin afar stór og allt til alls. Má þar nefna bænaherbergi, hleðslustöðvar, veitingahús, kaffihús og mjúkar pullur til að henda sér í þegar allt varð yfirþyrmandi og lætin sem mest.