- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
MA er samstarfsaðili í tveggja ára Erasmus verkefni um sjálfbærni með fjórum öðrum skólum, í Frakklandi, Þýskalandi, Danmörku, og Austurríki. Tuttugu nemendur á öðru ári taka þátt í verkefninu og var MA gestgjafi fyrstu vinnustofu verkefnisins í vikunni sem var að líða og tók á móti kennurum og nemendum frá hinum þátttökulöndunum. Verkefnastýrur fyrir hönd MA eru Ágústína Gunnarsdóttir, enskukennari og Eyrún Gígja Káradóttir, líffræðikennari.
Hér á Íslandi var þema verkefnisins skoðað út frá sjálfbærri orku og fóru nemendur í nokkrar vettvangsferðir og unnu saman að bæði kynningum og tímariti. Á þriðjudeginum byrjaði dagurinn á fyrirlestri um stöðu orkumála á Akureyri og svo lá leiðin til fyrirtækja og fóru nemendur og fengu kynningar hjá Moltu, Orkey, GPO, og Norðurorku. Svo unnu nemendur kynningar upp úr þeim heimsóknum. Á miðvikudeginum fóru allir til Mývatnssveitar undir dyggri leiðsögn Jónasar Helgasonar. Í þeirri ferð var skoðuð heimavirkjun á Stórutjörnum, kíkt í Vaðlaheiðargöng, Námaskarð, og Kröfluvirkjun – ásamt því að líta á Dimmuborgir, Skútustaðagíga, og skola af sér ferðarykið í jarðböðunum. Á fimmtudeginum unnu nemendur svo upp úr þeim upplýsingum sem að þeir höfðu viðað að sér í fyrirlestrum og kynningum og settu saman tímarit, sem verður síðan sett á bókasöfn allra þátttökuskóla.
Vinnustofan gekk að óskum og það voru glaðir kennarar og nemendur sem kvöddust í vikulok. Næsta vinnustofu verkefnisins fer svo fram í byrjun mars 2016 í Mainz í Þýskalandi, og munu þá Eyrún Gígja og Ágústína, ásamt fimm nemendum, leggja land undir fót og skoða sjálfbærni út frá markaðssetningu og því hvernig almenningur þekkir hugtakið.
Ágústína sendi þessa frásögn af verkefninu og myndir með.