- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Hringt var á sal í MA í morgun og Evrópski tungumáladagurinn haldinn hátíðlegur. Slagorð dagsins er: Tungumál opna dyr. Nemendur komu því saman og veltu fyrir sér þeim tungumálum sem eru allt í kringum okkur.
Ívan Árni Róbertsson og Valgerður María Þorsteinsdóttir stjórnuðu dagskránni. Hrefna G. Torfadóttir, enskukennari, sagði nokkur orð um mikilvægi tungumálakunnáttu í upphafi. Þar á eftir komu á svið fjölmargir nemendur skólans sem búa yfir kunnáttu í evrópskum tungumálum, þeir kynntu sig og sögðu ,,ég elska þig” á ýmsum tungumálum.
Nemendur fengu síðan það verkefni að þýða nokkrar setningar, sem dreift var um Kvosina, yfir á íslensku. Þetta gekk vel og augljóst að tækni og framþróun leika stórt hlutverk í tungumálaumhverfi nemenda þar sem þeir voru snöggir að nýta sér orðabækur og þýðingaforrit á Netinu.
Í kjölfarið fluttu Freyja Steindórsdóttir og Tumi Hrannar Pálmason tónlistaratriði en þau höfðu æft þýskt lag og Freyja samið við það íslenskan texta. Að lokum var evrópskur söngsalur þar sem lagið Meistari Jakob var sungið í keðjusöng á nokkrum evrópskum tungumálum.
Á Facebook síðu skólans eru margar skemmtilegar ljósmyndir og myndbönd sem Eyrún Huld Haraldsdótir og Hildur Hauksdóttir tóku.