Í gær var evrópski tungumáladagurinn. Að því tilefni kom í heimsókn í Kvosina Dario Schwörer, ásamt hluta af fjölskyldu sinni, en þau búa um borð í skútu og hafa siglt um heimsins höf undanfarin ár í leiðangri sem kallast Top-To-Top. Fjölskyldan mun hafa vetursetu hér í Akureyrarhöfn.

Í upphafi komu Schwörerhjónin á svið ásamt tveimur ungum börnum og enskri stúlku sem er sjálfboðaliði í leiðangri þeirra og sungu syrpu af smálögum á öllum fjórum tungumálunum sem töluð eru í Sviss, en þaðan eru hjónin. Frásögn Darios snerist svo um leiðangur þeirra og hugmyndina að baki henni, en þar er kjölfestan allt sem kallast getur vistvænt og náttúrulegt. Þau hafa siglt um höf og klifið tinda í öllum heimsálfum, kennt fólki og aðstoðað við að lifa hreinu og náttúrulegu lífi og svo mætti lengi telja.

Á Facewbooksíðu skólans eru myndbönd af broti úr fyrirlestrinum í gær, svolítilli þraut sem Dario lagði fyrir nokkra nemendur og kynning á samkeppninni TOPtoTOP Climate Solution Award, sem fyrir dyrum stendur.

Nánari upplýsingar um allt þetta eru meðal annars hér.