25 ára stúdentar í Laugalandsskógi
25 ára stúdentar í Laugalandsskógi

Þessa dagana eru að vanda margir og stórir hópar gamalla stúdenta skólans hér í bæ og í ferðum hér og þar um nágrannabyggðirnar. Þetta eru hópar stúdenta sem koma og heimsækja gamla skólann sinn á tímamótum sem standa á hálfum og heilum tug og hittast þannig reglulega og treysta vinaböndin sem hnýtt voru á skólaárunum.

Það hefur verið tíska síðustu árin að taka einn dag í fögunðinum í óvissuferð og þetta árið og í fyrra virðist óvissan leiða flesta ýmist til Siglufjarðar eða upp í Mývatnssveit. Algengt er að halda bekkjasamsæti í heimahúsum hér á Akureyri og koma svo saman til kvöldfagnaðar hver árgangur um sig. Öllu lýkur svo með stórhátíðinni, MA-hátíð, í Íþróttahöllinni að kvöldi 16. júní, en þar sameinast þessir mörgu en ólíku árgangar í borðhaldi og mikilli samsettri skemmtidagskrá. Þeir sem mest úthald hafa til fagnaðar koma svo að skólaslitum á 17. júní og fylgjast með dagskrá í tengslum við þau.

 

MA-skógur á ÞelamörkÁ árunum 1981 til 2000 var sú hefð ríkjandi að stúdentsefni fóru að loknum síðustu prófum í júní ásamt Tómasi Inga Olrich, þá aðstoðarskólameistara og síðar alþingismanni og ráðherra, og gróðursettu tré á Þelamörk, þar sem nú heitir Laugalandsskógur. Í fyrra var tekinn upp sá siður að 25 ára stúdentar fari í skóginn og merki sér skógarreitinn sinn. Það garðu 25 ára stúdentar í lok óvissuferðar sinnar (sem farin var til Siglufjarðar) nú á sunnudag. Á kortinu hér til vinstri má sjá hvar þessir skógarreitir eru og þegar þeir hafa verið merktir geta gamlir stúdentar komið og litið á skóginn sinn hvenær sem er. Merkin eru haglega gerð af Helga Þórssyni og Beate Stormo í Kristnesi.