FER-hópurinn með leyndarskjölin
FER-hópurinn með leyndarskjölin

Nú eru nemendur í ferðamálafræði lagðir af stað í óvissuferðina sem er hluti af lokaáfanganum. Óvissunni var þó létt af eldsnemma í morgun þegar nemendur opnuðu pakkann með öllum ferðagögnunum á Keflavíkurflugvelli. Þar kom í ljós að þeir eru á leiðinni til Potsdam, München, Augsburg, Salzburg, Lille og Toulouse í 3-4 manna hópum. Þar munu þeir dvelja fram á sunnudag og vinna að kynningarmyndböndum um borgirnar.

Í upphafi annar fékk hver nemendi eina borg og alla önnina hafa nemendur verið að safna heimildum um og skrifað ritgerð með ferðaleiðbeiningum. Þeir bjuggu sig undir að leiða hópinn um borgina og stýra vinnunni. Við heimkomu hefst vinna við að gera myndband um ferðina, sem er lokaverkefni í áfanganum, og oftast hafa nemendur farið í grunnskóla og kynnt þar evrópskar borgir. Þeir hafa með sér myndbandstökuvél en auk þess eru allir með fullkomnar mynda- og kvikmyndavélar í snjallsímum sínum. Þeir eiga meðal annars að taka viðtöl við heimamenn á þeirra máli og fella inn í myndbandið og þannig mætti lengi telja.

Ferðir sem þessar hafa verið farnar í rúman áratug og gefist vel. Námið í ferðamálafræði er fjölbreytt og gagnlegt, því meðfram tungumálanámi þjálfast nemendur í að skrifa leiðbeinandi texta á ýmsum málum, gefa út bæklinga, gera stuttmyndir og loks lokaverkefnið, kynningarmyndband. Auk þess þurfa þeir að kynna borgir sínar munnlega í bekknum og fara síðan með myndböndin og kynna þau fyrie grunnskólanemum.

Hér er hópurinn í rútunni þegar lagt var af stað suður í gærkvöld:

FER16