Sopið úr lind við Grænavatn
Sopið úr lind við Grænavatn

Nemendur í fyrsta bekk ABCD, þeir sem eru í náttúrulæsi á haustönn í MA, fóru í vettvangsferð í Mývatnssveit í dag með kennurum sínum.

Allir áðu um stund við Goðafoss á austurleiðinni en síðan fóru hóparnir á milli fjögurra verkstöðva. Ein stöðin var í Fuglasafni Sigurgeirs, þar sem meðal annars voru unnin fjölbreytt verkefni, önnur stöðin var við Vindbelg, en þar gengu allir upp á Belgjarfjall og skoðuðu jarðfræðileg og líffræðileg einkenni á þeirri leið og höfðu góða útsýn yfir sveitina og hálendið. Þriðja stöðin var svo um hraun og gíga, frá Skútustaðagígum að Grænavatnsbruna og Grænavatni, þar sem skoðuð voru mismunandi hraun og nýting hrauns til mannvirkjagerðar. Loks var jarðhitastöðin, þar sem farið var um hverina við Námaskarð og Grjótagjá heimsótt, en ýmsir nýttu sér tækifærið að fara þar í fótabað.

Veður var mun betra en út leit fyrir samkvæmt veðurspá. Rétt fyrir og um hádegi hvessti dálítið og einhverjir fengu á sig svolitla regndropa. Annars var veður bjart og fjallasýn með eindæmum góð, þótt gola væri nokkur er á leið daginn. En allir komu allheilir heim, reynslunni ríkari og þetta var ánægjuleg ferð með góða nemendur.