Ferðamálabraut í Jólahúsi
Ferðamálabraut í Jólahúsi

Síðasti vinnudagur nemenda 4. bekkjar A í ferðamálafræði var í gær, miðvikudag. Til þess að komast í jólaskapið höfðu kennararnir lofað nemendum að eftir hádegið myndu þeir bjóða í sleðaferð með hreindýri að amerískum sið. Þessu trúðu nemendur tæplega og brá því nokkuð í brún þegar einn kennarinn mætti dulbúinn sem hreindýr með sleða sem dulbúinn var sem rúta!

Á þessum farkosti var haldið fram í Jólahúsið þar sem Benedikt jólasveinn tók á móti hópnum af sinni alkunnu ljúfmennsku. Þar var sungið jólalag og síðan fræddi Benedikt hópinn um sögu jólahússins og þá starfsemi sem þar hefur farið fram frá því það var sett á stofn fyrir 14 árum. Heitt súkkulaði, hrátt hangikjöt og ilmur af jólum gerði þetta stutta stopp afar ánægjulegt.

Kennarar og nemendur ferðamálafræði senda Benedikt og fjölskyldu bestu þakkir og jólakveðjur. Einnig ber að þakka SBA - Norðurleið kærlega fyrir lánið á "Sleðanum"!

.