Bréf til nemanda í MA árið 1918
Bréf til nemanda í MA árið 1918

Gleðilegan fullveldisdag!

Nemendur okkar hugsa kannski sjaldnar út í fullveldi Íslands en gengnar kynslóðir sem prýða fallegu skólaspjöldin í Gamla skóla. Þó er öruggt að nemendur okkar hafa ekki gleymt mikilvægi þessa dags.

Eitt ritunarverkefni í ensku á fyrsta ári snýr einmitt að því að finna strenginn sem liggur svo fallega frá nemendum sem sitja á efri hæð Gamla skóla til jafnaldra sinna sem stunduðu þar nám fyrir rúmri öld. Útsýnið yfir Pollinn er jafn fallegt í dag og það var þá.

Nú og þá sitja nemendur og skrifa. Í þetta skiptið bréf til einhvers sem var jafnaldri þeirra árið 1918 á Íslandi. Ef hugmyndaflugið höktir má rölta eftir göngum Gamla skóla og finna sér nemanda á skólaspjaldi sem hefði kannski gaman að því að fá bréf úr framtíðinni.

Hverju vilja nemendur á fyrsta ári deila með jafnöldrum sínum á fullveldisárinu 1918? Hér má lesa brot úr bréfum þeirra sem snarað hefur verið yfir á íslensku í tilefni dagsins.

 

Ég er þakklát fyrir þig og þína kynslóð og allt sem þú gerðir fyrir þjóðina. Ég held þú værir stoltur ef þú værir hérna núna.

• Sum börn kunna meiri ensku en íslensku sem er slæmt. Vonandi breytist það með tímanum en ég er ekki vongóð.

• Þó þetta sé ekki fullkomið og það séu alltaf einhverjir sem eru að kvarta og rífast og margt þyrfti að breytast þá er ég þakklátur fyrir og hamingjusamur með hvað þið gerðuð fyrir Ísland og hvar það er statt í dag.

• Kæri [], þú veist það kannski ekki en ég er langafabarnið þitt. Ég fékk aldrei að hitta þig því þú fórst í sjóskaða. En kannski hefðir þú verið of gamall hvort eð er.

• Nú er kona forsætisráðherra. Ég er ekki viss um að þú hafir átt von á því. Þess vegna ákvað ég að segja þér frá því.

• Til langalangafa. Það gleður mig að upplýsa þig um að ég er nú nemandi í MA. Ég vildi óska að ég vissi í hvaða skóla þú fórst, ég vona að það hafi verið MA. Ég vil að þú vitir að ég hitti yngsta son þinn oft og lék mér heima hjá honum þegar ég var lítil. Hann býr enn á Húsavík með eiginkonu sinni.

• Þér fyndist örugglega fáránlegt hversu ljúft lífið er í dag. Sum þurfa ekki einu sinni að vinna því þau eru svo rík!

• Það gleður mig mjög mikið að allir hafa færi á góðri menntun en það eru samt alltaf einhver vandamál. Skóli getur t.d. verið yfirþyrmandi fyrir marga nemendur í dag sem hefur slæmar afleiðingar fyrir andlega heilsu.

• Við erum búin að leysa flest þau vandamál sem þú glímdir sennilega við árið 1918 en engar áhyggjur, við bjuggum bara til ný í staðinn.

• Veistu, við vitum nákvæmlega hvernig veðrið verður á morgun vegna tækniframfara en ég vil kannski ekki fara djúpt í þá umræðu því þú munt örugglega aldrei skilja það. En í stuttu máli þá vitum við núna hvenær er von á sólskini eða hellirigningu.

• Á 20. öldinni hefur tónlist þróast, hún var áður samin með hljóðfærum en nú er það að mestu gert í tölvum. En þú veist ekki hvað tölva er.

• Í menningarlegu tilliti hefur Ísland breyst heilmikið. Enskt slangur kom með bandamönnum í seinni heimsstyrjöldinni (höskuldarviðvörun) og ferðamannasprengja hefur haft í för með sér endalausar auglýsingar um lunda og káta víkinga.

• Menningararfurinn er okkur mikilvægur þó við klæðumst ekki eins og Íslendingar gerðu í gamla daga. Við höldum enn í litlu hlutina eins og nafnahefðir og fallega tungumálið.

• Í dag ganga konur bara í buxum eins og ekkert sé. Við höfum kosningarétt og það er engin skömm ef kona velur að giftast ekki eða að eignast ekki börn. Sumir segja reyndar að við höfum náð jafnrétti en ég held að baráttunni ljúki aldrei. Hvert skref sem við tökum í rétta átt er sigur fyrir hverja einustu konu sem hefur barist eða mun berjast fyrir réttindum allra kvenna í fortíð, nútíð og framtíð.

 

Hildur Hauksdóttir