Nemendur í menningarsögu stilla sér upp við Pollinn
Nemendur í menningarsögu stilla sér upp við Pollinn

Í MA er kenndur áfangi sem kallast menningarsaga. Þar er kastljósi beint að menningu og listum úti í hinum stóra heimi en einnig að framlagi Íslands til heimsmenningarinnar. Heimabyggðin kemur líka við sögu. Nemendur á öðru ári hafa á seinni hluta vorannar kynnt sér dvöl innlendra og erlendra menningarvita í Eyjafirði og á Akureyri á fyrri hluta 20 aldar. Ýmislegt áhugavert kom í ljós við þá vinnu og ljóst að margir áhugaverðir einstaklingar hafa staldrað við í bænum um lengri eða skemmri tíma. Í dag fetuðu nemendur og kennari í fótspor nokkurra einstaklinga sem stöldruðu við í bænum á fyrrnefndu tímabili og komu þannig við sögu á önninni sem nú er að ljúka.

Hópurinn hóf gönguna við Menntaskólann en fyrsti viðkomustaður var við Pollinn. Kennarinn rifjaði upp sögur af þremur merkilegum skipum sem komu til Akureyrar með ekki óþekktari sögupersónur innanborðs en sjálfan Tinna, Kolbein, Tobba og Evu Braun. Næst var staldrað við hjá Laxamýri við Strandgötu, heimili foreldra Jóhanns Sigurjónssonar skálds. Hann dvaldi þar um tíma á meðan hann skrifaði leikritið sitt um Fjalla-Eyvind sem kom út árið 1911. Frá Laxamýri gekk hópurinn nokkra metra í vesturátt á slóðir Kristínar Eggertsdóttur hótelstýru á hótel Oddeyri og rithöfundarins kunna James Norman Hall sem dvaldi á hótelinu árið 1922. Nokkrum metrum frá afgreiddi Lára Ólafsdóttur í Sápubúðinni sem þá stóð við Strandgötu en Þórbergur Þórðarson gerði Láru ódauðlega í bókinni Bréf til Láru árið 1924. Munkaþverárstræti var næsti áfangastaður og húsið sem May Morris dvaldist í árið 1931 var skoðað. Á leiðinni upp Bjarkarstíg var komið við hjá Davíðshúsi þar sem rifjuð var upp sagan af norsku leikkonunni Gerd Grieg. Hún var góð vinkona Davíðs Stefánssonar skálds til margra ára og dvaldi um tíma á heimili hans. Síðasti viðkomustaður þessarar menningar- og sögugöngu var Helgamagrastræti þar sem skáldið W. H. Auden fékk að hvíla lúin bein í nýbyggðu húsi í nokkrar nætur árið 1936.

Fleiri myndir frá göngunni má finna á fésbókarsíðu skólans.