Fimu MA-ingarnir Salka og Jóhann Gunnar
Fimu MA-ingarnir Salka og Jóhann Gunnar

Tveir nemendur skólans, Jóhann Gunnar Finnsson í 3.X og Salka Sverrisdóttir í 2.U, kepptu fyrir hönd Íslands í hópfimleikum á Evrópumótinu í Lúxemborg um daginn. Ma.is tók þau tali og spurði þau út í upplifunina og frábæran árangurinn. 

,,Ég get það sem ég vil!“

Salka hefur æft fimleika í 15 ár og hópfimleika síðasta árið, hún keppti með stúlknalandsliði Íslands í hópfimleikum og kom heim með bronsið. ,,Ég er rosalega þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni, þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert og mun alltaf búa að því“. Salka segir jafnframt að til að ná þessum árangri þurfi fyrst og síðast að vera góður í fimleikum, hafa mikinn metnað, dugnað, styrk, hugrekki og ekki síst að vera góður liðsfélagi. Hún segir frábærar stelpur vera í liðinu: ,,Já, ég var mjög heppin með lið. Við kynntumst vel og erum allar mjög góðar vinkonur. Ein æskuvinkona mín úr Gerplu var með mér í liðinu og var minn herbergisfélagi úti“.

Skemmtilegast og eftirminnilegast af mótinu segir Salka hafa verið þegar tvö áhöld af þremur hafi verið búin og þær sáu að verðlaunasæti væri mögulegt. Að fá að uppskera eftir mikið álag í langan tíma hafi bara verið geggjuð tilfinning. Þó svo að stress og spenna einkenni stemninguna á svona móti segir Salka að stelpurnar hafi líka getað slakað á saman á milli og að gleðin hafi líka verið ráðandi. ,,Við löbbuðum aðeins um bæinn, horfðum á önnur lið keppa, borðuðum saman og höfðum það huggulegt en innst inni var alltaf mikil spenna líka“.

Salka gat lítið unnið í sumar en einbeitti sér fyrst og fremst að undirbúningi fyrir mótið: ,,Þetta var þriggja mánaða tímabil með landsliðinu sem byrjaði sem betur fer í sumar. Eftir að skólinn byrjaði reyndi ég alltaf að mæta einhverjar daga vikunnar þó lítið væri. Ég flaug á milli í hverri viku. Ég lærði eitthvað þegar ég var á æfingum í Reykjavík en þegar við vorum komnar til Lúxemborgar var lítið sem ekkert kíkt í bækur. Dagarnir voru einfaldlega of þéttir. Það er mikið stúss að búa úti á landi og vera í landsliðsverkefnum. Það er meira álag á manni“.

Foreldrum og þjálfurum Sölku er m.a. að þakka fyrir þann árangur sem hún hefur náð. Þetta sé ekki hægt nema með gott fólk í kringum sig. Hún segist heppin að hafa fengið að æfa með sínum bestu vinkonum, það sé ómissandi að hafa gaman í sportinu sínu. Lífsmottó Sölku eru nokkur en hún segir mikilvægast að njóta lífsins á hverjum degi, vera þakklát fyrir það góða í kringum mann og að hugsa alltaf ,,ég get það sem ég vil!"

Örfáar hraðaspurningar að lokum:

Uppáhaldslitur? Bleikur

Sushi eða pizza? Sushi

Framtíðarstarf? Uhh enga hugmynd, vonandi eitthvað spennandi og skemmtilegt

Bestu þættirnir? Ófærð

Ef ekki fimleikar, hvað þá? Einmitt, ég prófaði ýmislegt en þetta var aldrei spurning

Draumaborgin? London

MA er? Best!

,,Stemning, pressa, geggjað!“

Þessi þrjú orð lýsa upplifun Jóhanns Gunnars af stórmóti, en hann keppti með karlalandsliði Íslands í hópfimleikum. Þeir náðu fjórða sæti og eru að vonum stoltir: ,,Já, ég gæti ekki verið ánægðari með árangurinn. Þegar það eru svona ótrúlega fáir strákar sem æfa þessa íþrótt hér á landi miðað við hin löndin er það með ólíkindum að ná fjórða sæti. En uppáhaldið mitt við mótið var þegar við hlupum inn í keppnissalinn með Fjöllin hafa vakað ómandi undir og maður spenntist allur upp við lætin í áhorfendunum“.

Til þess að ná þeim árangri að komast í karlalandsliðið þarf að sýna aga og vilja til að gera sitt besta, vera góður liðsmaður og svo auðvitað að vera góður í íþróttinni, það tekur mörg ár og mikla þjálfun að komast á þetta getustig. ,,Ég æfði áhaldafimleika í 12 ár en skipti svo yfir í hópfimleika þar sem ég er búinn að vera í tvö ár. Það er bara eitt karlalandslið á landinu og við tveir sem æfum hópfimleika hér á Akureyri erum báðir á samning hjá Stjörnunni“. Jóhann segir liðsfélagana vera góða vini sem séu mikið saman utan æfinga líka, margir af hans bestu vinum eru í hópnum.

Það getur reynst snúið að sameina stífar æfingar fyrir stórmót samhliða náminu í MA en Jóhann segir það yfirleitt ganga upp. ,,Ég læri samt miklu minna þegar ég er í burtu en kemst sem betur fer upp með flest. Þegar ég er fyrir sunnan á æfingum alla daga þá er ég bara lítið að hugsa um námið en það reddast allt á endanum“. Þegar umræðan snýr að mataræði og hollustu segir Jóhann: ,,Í svona landsliðsverkefnum leggja þjálfarar mikla áherslu á svefn og næringu. Það má samt alveg leyfa sér aðeins í óhollustunni en maður á samt að hugsa vel hvað maður lætur ofan í sig. Ég pantaði mér samt Domino’s pizzu 2-3 í viku allt ferlið, en það hafði lítil sem engin áhrif á frammistöðu mína á æfingum, en það á kannski ekki við um alla“.

En hverju þakkar hann árangurinn? ,,Ég þakka að sjálfsögðu sjálfum mér. Ég þakka liðinu fyrir frábært ferli og geggjaða reynslu. Ég þakka MA fyrir að gefa mér leyfi á að hverfa bara í mánuð. Ég þakka foreldrum mínum fyrir fjárhagslegan stuðning. Seinast en ekki síst þakka ég Degi Smára fyrir að hjálpa mér við námið á meðan ég var í burtu“. Jóhann stefnir á að halda áfram í íþróttinni á meðan líkaminn leyfir honum það. ,,Ég vil halda áfram að keppa með Stjörnunni og fyrir hönd Íslands. Stærsta markmiðið mitt er að verða All-Star á EM, en til þess að vinna það þarf ég að vera með þeim allra bestu í íþróttinni“.

Jóhann og Salka leika listir sínar

Við þökkum þeim fyrir spjallið og óskum þeim að sjálfsögðu velfarnaðar áfram!