- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Ráðstefnan Lærdómssamfélagið, samstarf og samræða allra skólastiga, fór fram í Íþróttahöllinni, Brekkuskóla og Menntaskólanum á Akureyri í gær. Mikið fjölmenni sótti ráðstefnuna, hálft annað þúsund kennara og starfsmanna skóla, aðallega af Norðurlandi, en þarna voru líka þátttakendur úr öðrum landshlutum, meðal annars vestan af fjörðum, sunnan af höfuðborgarsvæðinu og hópur kennara leikskóla og grunnskóla í Árnessýslu.
Gunnar Gíslason fræðslustjóri á Akureyri setti ráðstefnuna en Jón Már Héðinsson skólameistari MA var ráðstefnustjóri.
Í upphafi flutti Erla Björg Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri hjá SÍMEY hugvekju, en SIMEY hélt að mestu utan um ráðstefnuhaldið. Því næst flutti Louise Stoll prófessor frá London erindi sitt um lærdómssamfélagið, Professional learning society. Að því loknu gerði Birna Svanbjörnsdóttir menntunarfræðingur grein fyrir doktorsrannsókn sinni á lærdómssamfélaginu.
Að loknum erindum voru samræðuhópar í Íþróttahöllinni, Brekkuskóla og MA. Eftir hádegi voru loks málstofur í Brekkuskóla og MA. Þær voru klukkutímalangar og nær allar fluttar tvisvar. Mikill erill var því í skólahúsunum fram á miðjan dag.
Á myndinni, sem tekin var í Höllinni í gær, sjást í fremstu röð Louise Stoll, Birna Svanbjörnsdóttir, Gunnar Gíslason og Erla Björg Guðmundsdóttir.