- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Skólayfirvöld í Menntaskólanum á Akureyri kynntu fjölþættar breytingar á námskrá skólans í gær á fundi með menntamálaráðherra, fulltrúum grunnskólanna, rektor Háskólans á Akureyri og fréttamönnum fjölmiðla. Ný námskrá er þróunarverkefni, sem unnið hefur verið að undanfarin ár, og tekur gildi á komandi hausti. Í skólanum verða tvær meginnámsbrautir, val nemenda verður fjórðungur af námi þeirra til stúdentsprófs, mikil nýjung verður tekin upp á fyrsta námsári með samvinnu margra námsgreina undir áfangaheitinu Ísland og upp verða teknir svonefndir velgengnisdagar. Jón Már Héðinsson skólameistari og Árný Helga Reynisdóttir brautarstjóri gerðu grein fyrir breytingunum en að því loknu voru umræður og fyrirspurnum svarað. Mjög góður rómur var gerður að þeim hugmyndum sem greint var frá svo og samvinnu skólans við önnur skólastig. Í fréttatilkynningu frá skólanum segir:
Menntaskólinn á Akureyri hrindir frá og með næsta skólaári í framkvæmd umfangsmestu breytingum á náms- og kennslufyrirkomulagi skólans frá því áfangakerfi var tekið upp við skólann fyrir 30 árum. Stærstu breytingarnar í nýrri námskrá skólans lúta að námi á fyrsta ári sem verður brotið verulega upp með svokölluðum Íslandsáfanga, en um helmingur náms á fyrsta ári verður helgaður honum. Meðal annarra nýjunga í skólastarfinu er að nemendur þurfa að ljúka viðamiklu lokaverkefni á síðustu önn námsins. Ein af helstu röksemdunum fyrir breytingum á starfi Menntaskólans á Akureyri segir Jón Már Héðinsson, skólameistari, er að auka virkni nemenda og ábyrgð þeirra á námi sínu í breyttu þjóðfélagi.
Menntaskólinn á Akureyri verður áfram bóknámsskóli með bekkjarkerfi og nám til stúdentsprófs verður eftir sem áður fjögur ár. Nú er skólanum brautaskipt í málabraut, félagsfræðibraut og náttúrufræðibraut en eftir breytingar verða tvö svið, þ.e. tungumála- og félagsgreinasvið annars vegar og raungreinasvið hins vegar. Nemendur velja sér svið strax í upphafi náms við skólann.
Undirbúningur breytinganna hefur staðið í nokkur ár, en fékk byr undir báða vængi með nýjum framhaldsskólalögum sem öðluðust gildi sumarið 2008. Að vinnu við nýja námskrá MA komu allir kennarar og nemendur skólans, auk þess var gerð könnun meðal eldri stúdenta og þannig var byggt á sem lýðræðislegustum vinnubrögðum.
Íslandsáfangi - landið, þjóðin og tungan í forgrunni námsins
Íslandsáfanginn er ný hugsun í framhaldsskólastarfi og spannar hann um helming náms fyrsta árs nema. Áfanganum er ætlað að skerpa sýn og auka skilning nemenda á landi sínu, þjóð og tungu. Hann er tvískiptur; annarsvegar fléttast saman nám í íslensku, félagsfræði og sögu en hinsvegar í íslensku, líffræði, jarðfræði og landafræði. Upplýsingatækni er samofin allri verkefnavinnu og sérstaklega er hugað að læsi og beitingu móðurmálsins, bæði í ræðu og riti. Virk þátttaka nemenda í eigin námi liggur til grundvallar og er mikið lagt upp úr að glæða áhuga þeirra á umhverfi sínu og náminu almennt. Þessu er fylgt eftir með markvissri verkefnavinnu með áherslu á samvinnu, frumkvæði og ábyrgð. Áfanginn byggir að verulegu leyti á ferlivinnu í kennslustundum þar sem nemendur fá tækifæri til að vinna verkefni sín undir leiðsögn kennara. Nemendur sækja fróðleik og gögn í vettvangsferðum og fer námið fram utan skólans sem innan.
Fjórar meginbreytingar
Segja má að breytingarnar hjá Menntaskólanum á Akureyri snúist fyrst og fremst um fjóra þætti. Í fyrsta lagi er áðurnefndur Íslandsáfangi, en kennslufyrirkomulag hans verður með allt öðru lagi en hefðbundið er og þannig má segja að bæði nemendur og kennarar vinni með nýjum hætti. Í námsmati á fyrsta ári verður einnig aukin áhersla á símat - og það er svipuð áhersla og hefur átt sér stað í grunnskólunum á undanförnum árum.
Svokallaðir velgengnisdagar verða teknir upp á öllum önnum og eru þeir nokkurra daga uppbrot á hefðbundinni kennslu. Á vissan hátt má segja að vinna nemenda á velgengnisdögum sé bæði tengd áherslum sem hafa verið kenndar í lífsleikni, en eigi líka rætur í þeim grunni sem lagður er með Íslandsáfanganum á fyrsta ári.
Þriðja breytingin felst í sérstöku lokaverkefni sem allir nemendur þurfa að ljúka á fjórða ári. Hugmyndin með því er að auka þjálfun þeirra í sjálfstæðri verkefnavinnu undir leiðsögn, líkt og bíður þeirra í háskólanámi.
Fjórða atriðið snýr að dönskukennslu, en danska verður nú færð frá fyrsta ári yfir á þriðja ár. Einn ávinningur af því er að þeir nemendur sem halda síðan til háskólanáms á Norðurlöndunum að loknu stúdentsprófi hafa þá nýlokið framhaldsskólanámi í dönsku.
Búum nemendur betur undir lífið í lýðræðisþjóðfélagi
Jón Már Héðinsson, skólameistari MA, segir skólann síður en svo slaka á kröfum til nemenda sinna, en val verði verulega aukið. ?Við höfum undanfarin ár rætt um nauðsyn þess að breyta námskrá skólans í samræmi við breyttan tíðaranda og framhaldsskólalögin sem samþykkt voru árið 2008 opna okkur þennan möguleika," segir Jón Már.
?Mikilvægast þykir okkur að auka virkni nemenda og hjálpa þeim að öðlast heildarsýn á nám sitt og gildi þess. Við leggjum mikla áherslu á að veita nemendum okkar breiða almenna menntun og auk þess er mikilvægt að brúa bilið yfir til skólastiganna beggja megin við okkur. Sama er að segja um tilgang lokaverkefnis nemenda fyrir brautskráningu úr MA, en þótt mestu breytingarnar séu gerðar á fyrsta og fjórða ári þá snerta þær í raun allan námstímann. Við teljum að með breytingunum náum við að tengja nám nemenda Menntaskólans á Akureyri mun betur en áður við þjóðfélagið, umhverfi þeirra og nærsamfélag. Það á að efla hugsun þeirra og enda göngum við út frá þeirri meginhugsun að hlutverk okkar sé að búa nemendurna undir líf í lýðræðisþjóðfélagi, jafnframt því að þeir séu tilbúnir að takast á við háskólanám. Gleggsta vitni þess að við séum á réttri leið hafa verið þær áherslur sem hafa komið út úr þjóðfundum að undanförnu, en þar hefur kveðið við sama tón og er hljómurinn í nýrri námskrá Menntaskólans á Akureyri," segir Jón Má Héðinsson, skólameistari.
Myndirnar tók Stefán Erlingsson.