Umhverfisnefnd MA flutti áhrifamikinn gjörning í síðustu viku þar sem takmarkið var að beina athygli nemenda að bættri flokkun sorps í skólanum. Ruslahrúga, sem öll hafði lent í almennu tunnunni, var í Kvosinni þegar nemendur komu í skólann að morgni. Í löngu frímínútum flokkaði nefndin svo ruslið í réttar tunnur undir taktfastri tónlist.

Nú í vikunni talaði nefndin svo við nemendur í Kvos og greindi frá helstu flokkunartölum í MA. Almennt rusl í MA var 2800 kg árið 2021 og með betri flokkun væri hægt að bæta 2310 kg af því í flokkað rusl. Í almenna ruslið ætti nær eingöngu að fara tyggjó.

Á Facebook má finna myndskeið frá gjörningnum.

Betur má ef duga skal!