Þegar fundargestir voru að fylla salinn
Þegar fundargestir voru að fylla salinn

Fundur fyrir foreldra og forráðamenn 1. bekkinga sem haldinn var mánudaginn 13. febrúar var afar vel sóttur. Fundarefnið var nýja námskráin, þriggja ára námstími og sveigjanleg námslok. Þegar ný námskrá var undirbúin var ákveðið að hafa einingafjöldann meiri en lágmark er samkvæmt lögum um framhaldsskóla, það er 210 einingar í stað 200.  Ljóst var að það myndi þýða töluvert mikið álag á nemendur.

Árangur nemenda á prófum í janúar var engu að síður mjög góður og árgangurinn stóð sig vel í nýrri námskrá. En vinnudagurinn er langur, ekki síst nú á vorönn þegar ein námsgrein bætist við hjá öllum brautum. Farið var yfir það á fundinum að nemendur geta þó frestað einni námsgrein og ýmist lokið henni að sumarlagi eða dreift öllu náminu á eina eða tvær annir til viðbótar.

Ennfremur var lögð áhersla á að námskráin er stöðugt til endurskoðunar, mikilvægt er að hlusta á nemendur í þessum fyrsta árgangi og því verða tekin rýnihópaviðtöl og lagðar kannanir fyrir þá síðar á önninni. Einingafjöldinn verður líka endurskoðaður og færður að lágmarkinu sem eru 200 einingar.

Kynnt var stuttlega nýjung skólans í nýnemafræðslu, sem fólst í mikilli áherslu á námstækni á haustönn en á vorönn verður áherslan á námskeið í núvitund. Hugrækt á líka sinn sess í íþróttakennslunni því ein kennslustund af þremur er helguð yoga, hugleiðslu og slökun.

Það var afar ánægjulegt hversu margir foreldrar sáu sér fært að koma á fundinn og hitta síðan umsjónarkennara barna sinna að honum loknum. Glærur af fundinum er hægt að nálgast hér og einnig má benda á að á dögunum fengu foreldrar upplýsingapóst um sveigjanleg námslok.