Í gær komu rúmlega eitt hundrað foreldrar og forráðamenn nemenda í fyrsta bekk í heimsókn í Menntaskólann á Akureyri til að kynna sér nám þeirra í menningar- og náttúrulæsi.

Sérstaklega var þeim boðið til kynningar vegna þess hve ólíkir þessir áfangar eru hefðbundnum áföngum í flestum öðrum kennslugreinum. Menningarlæsi var kynnt sérstaklega foreldrum þeirra sem þar eru á haustönninni og sömuleiðis var sérstök kynning fyrir forráðamenn náttúrulæsisnema. Ríflega fimmtíu manns voru í hvorum hópi og góðar samræður meðal gestanna og kennara.

Skólinn og kennarar eru þakklátir foreldrum fyrstubekkinga fyrir mjög góða þátttöku í þessum kynningum með stuttum fyrirvara. Kynnendur voru svo önnum kafnir í þessu skemmtilega verkefni að þeir gleymdu að taka myndir - uns örfáir voru eftir að skoða litskrúðug og fjölbreytt póstkort úr nýfarinni ferð í Mývatnssveit.