Forvarnadagurinn er miðvikudagurinn 5. október. Í ár er sjónum Forvarnardagsins í fyrsta sinn beint að framhaldsskólastiginu en hingað til hefur vettvangur dagsins verið í grunnskólunum eingöngu. Ljóst er að framhaldsskólarnir taka framtakinu vel og verður allt gert til að vel takist.

Nýjar rannsóknir sýna að ölvunardrykkja ungmenna eykst mjög fyrsta árið sem nemendur stunda framhaldsskóla og því er vert að staldra við og sjá hvort hægt er að hafa áhrif á þá þróun. Upplýsingar frá Rannsóknum & greiningu um þróun vímuefnaneyslu meðal grunnskólanema í 10. bekk og fram á 1. ár í framhaldsskóla sýna að áfengisneysla þeirra eykst um 43%. Það er augljóslega áhyggjuefni að svona alvarlegur og mikill vöxtur skuli vera í neyslu unglinga á þessu stigi.

Forvarnardagurinn er í upphafi fyrst og fremst miðaður við 1. árið. Skólarnir eru hvattir til að halda ,,Þjóðfund með nemendum“ um það hvað gæti komið í veg fyrir eða tafið fyrir því að þeir hefji áfengisneyslu. Þeim verður gefið tækifæri til að velta þessum hlutum fyrir sér og senda inn skrifleg svör. Þessi þjóðfundur verður hér í MA haldinn í umsjónatímanum hjá 1. bekk á föstudaginn.

Öllum nemendum framhaldsskóla á landinu er boðið að taka þátt í skemmtilegri myndbandasamkeppni sem lýtur að grunngildum Forvarnadagsins. Allar leiðbeiningar um keppnina eru á heimasíðunni http://www.facebook.com/forvarnardagur. Veggspjöld hafa verið hengd upp í MA og nemendur eru hvattir til að taka þátt í keppninni. Skilafrestur er til 1. nóvember en keppnin er þegar hafin.

Á miðvikudaginn verður í Kvosinni söngur, dans, kynning á myndbandasamkeppninni og hugleiðing, sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson flytur. Dagskráin í Kvosinni hefst klukkan 9.40 og hún mun standa í eina klukkustund.