Eins og kunnugt er, greiddu félagar í KÍ atkvæði um verkfallsboðun. Enn er hálfur mánuður til stefnu en ef ekki verður samið hefst ótímabundið verkfall í MA 21. febrúar n.k. hjá Félagi framhaldsskólakennara (FF) og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum (FS). Þangað til verður engin breyting á skólastarfi frá því sem nú er og kennt verður samkvæmt stundaskrá og þeim áætlunum sem lagðar voru fram í upphafi annar.

Komi til verkfalls er vert að árétta að það nær til allra kennara skólans, náms- og starfsráðgjafa, sálfræðings, aðstoðarskólameistara og brautarstjóra, þ.e. þeirra sem eru í FF og FS. Verkfallið hefur ekki áhrif á störf starfsfólks sem ekki er í framangreindum félögum.

Á meðan á verkfalli stendur verður skólinn opinn á virkum dögum, hjúkrunarfræðingur verður til viðtals á áður auglýstum tímum og bókasafnið opið. Heimavist MA og VMA verður opin sem og mötuneytið.

Nánari upplýsingar verða sendar út þegar nær dregur boðuðu verkfalli ef ekki hefur tekist að semja fyrir þann tíma sem við vonum öll að verði raunin.

 Skólameistari