Í dag kom í heimsókn í Menntaskólann franski sendiherrann, Philippe O’Quin, og ásamt honum vísinda- og menningarfulltrúi sendiráðsins, Guðrún Sigríður Sæmundsen. Þetta er í fyrsta sinn sem núverandi sendiherra Frakka heimsækir skólann, en hann tók við starfi í október 2014.

Sendiherrann og menningarfulltrúinn áttu fund með frönskukennurunum, Erni Þór Emilssyni og Önnu Eyfjörð Eiríksdóttur, meðal annars um samstarf franskra og íslenskra skóla og möguleika á styrkjum til náms í Frakklandi. Frönskukennarnarnir fóru með gestina í kynnisferð um hús skólans og hittu skólameistara að máli, en því miður var ekki kostur á að þeir hittu nemendur í þessari ferð, þar sem nú standa yfir próf.

Ferð sendifulltrúa Frakka hingað norður núna er öðrum þræði til að ýta úr vör Akureyrarhluta Frönsku kvikmyndahátíðarinnar, sem hér verður 18. – 24. janúar, en 5 af myndum hátíðarinnar í Reykjavík verða sýndar í Borgarbíói þá daga. Hátíðarsetning verður þar á sunnudag.

Heimsóknir erlendra fulltrúa í skólann eru ánægjulegar og þess ber að geta að margir nemendur Menntaskólans á Akureyri hafa stundað nám á franskri grundu og jafnvel sest þar að í lengri eða skemmri tíma.

Mynd af gestum og gestgjöfum tók Guðjón H. Hauksson

fra