- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Þessa önnina hef ég kennt nemendum á félagsgreinabraut þriðju bekkjar valáfangann “Tilvistarstefnan”. Áfanginn beinir sjónum sínum að heimspekingum sem kenna má við tilvistarstefnuna, heimspekistefnu sem rekja má allt aftur til Sókratesar en varð fyrirferðamikil upp úr seinni heimsstyrjöld og teygði anga sína víða. Ég legg áherslu á áhrif þessarar tilteknu á annars vegar heimspeki og hins vegar bókmenntir.
Áfangann smíðaði ég í kringum kennsluhefti sem ég bjó til fyrir önnina en kennsluheftið samanstendur af þrettán köflum og er einn kafli tekinn fyrir í viku hverri. Aftast í hverjum kafla eru frumtextar ýmissa heimspekinga og rithöfunda, sem gegna veigamiklu hlutverki í áfanganum. Í fyrstu tveimur tímum vikunnar hlýða þau á fyrirlestur kennara, í næstu tveimur taka þau kennsluheftið og lesa frumtexta í fyrri tímanum og í þeim síðari ræðum við þann tiltekna texta. Í síðustu tveimur tímum vikunnar gefst nemendum svo tækifæri á að vinna að verkefnum.
Áfanginn er að sumu leyti forngrískur, en öll tæki og tól, önnur en blað og blýantur, eru afhent kennara í fjórum af sex kennslustundum vikunnar. Þess í stað nótera þau hjá sér glósur úr fyrirlestrum og sömuleiðis þær hugrenningar sem vakna við lestur frumtextanna, þar sem eina reglan er sú, að bannað er að ljúga. Í hverri færslu í glósubókinni þarf að sýna fram á að nemandi hafi verið með meðvitund í umræddri kennslustund, með því að færa inn eitthvað um efni tímans, auk þess sem þau taka fram hvort það hafi verið gaman/leiðinlegt/áhugavert. Sú glósubók er veigamesti þáttur námsmatsins, en þau skila glósubókinni þrisvar á önn, ásamt öðrum smærri verkefnum.
Upphaflega markmiðið með áfanganum var, ásamt því hugsanlega að kenna einhverja heimspeki og kynna heimspekilegar bókmenntir, að gefa nemendum frelsi til þess að láta sér leiðast. Það var aðallega vegna þess að við erum oft svo upptekin af því að hafa gaman, bæði kennarar og nemendur, að við gleymum því að við erum til. Hvergi gefst manni jafn gott tækifæri til þess að velta tilvistinni fyrir sér þegar maður er laus við skemmtunina. Það væri nefnilega enn leiðinlegra, sérstaklega fyrir þessa kynslóð sem er svo upptekin af því láta sér ekki leiðast með öllum tækjunum og tólunum(ég tel mig tilheyra þessari sömu kynslóð, unglingurinn sem ég er), að vakna einn daginn og vera dáinn, hafandi aldrei velt því fyrir sér hversu sjaldgæft það er að vera til. Við (aftur, unglingurinn sem ég er) erum nefnilega kynslóð sem hefur enga heimsstyrjöld, ekkert kalt stríð og ekkert að óttast. Þrátt fyrir það, erum við sú kynslóð sem virðist líða hvað mestar sálarkvalir, ef mið er tekið af sálfræðikönnunum og tölulegum staðreyndum um lyfjanotkun. Helstu áhyggjurnar snúa að opnun skemmtistaða og félagslegri viðurkenningu, (nú tala ég fyrir sjálfan mig, en ekki kynslóðina) vaxtastefnu Seðlabankans eða lengd sumarfría. Fjarlægð okkar frá sjálfum okkur hefur aldrei verið meiri en í árdaga tuttugustuogfyrstu aldarinnar; við lifum lífinu í gegnum síu tækja og tóla og þurfum sjaldnast að takast á við þá skringilegu staðreynd að við erum til, í plúsmínus 80 ár.
Ergo, áfanginn gengur út á að láta sér leiðast til þess að hafa gaman til að læra að lifa til að kunna gott að meta.