Það er stór dagur í dag, frumsýning LMA á söngleiknum Heathers í Hofi. Alls koma um 60 nemendur að sýningunni, leikarar, dansarar, tónlistarfólk og svo öll þau sem sjá um leikmynd, búninga, markaðsmál, hárgreiðslu og förðun o.s.frv. Síðustu vikur hafa verið annasamar hjá hópnum og mikil vinna og ástríða sem liggur að baki sýningunni. Það er því mikil spenna í lofti í dag og samkvæmt hefð hjá leikfélaginu þá er pálínuboð í dag til að stilla saman strengi og ná frumsýningarskrekknum úr hópnum. 

Á general-sýningunni í gærkvöldi voru ríflega 100 nemendur úr 9. bekk sem tóku sýningunni afar vel.

Leikstjóri er Elísabet Skagfjörð og Páll Hlíðar Svavarsson er aðstoðarleikstjóri. Jóhanna Rún Snæbjörnsdóttir og Hugrún Lilja Pétursdóttir útsettu tónlistina og stjórna hljómsveitinni. Birta Ósk Þórólfsdóttir og Bjarney Viðja Vignisdóttir sömdu dansana og sáu um æfingar dansaranna. Formaður LMA er Eva Hrund Gísladóttir.

Sýningar verða 12. og 13. mars, 17. og 18. mars og miðasalan er á mak.is.

Góða skemmtun!