- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Mikið hefur verið um að vera í MA þessa vikuna. Einn af stóru atburðunum var heimsókn tveggja sérfræðinga um bandarísku forsetakosningarnar, en þeir komu hingað á þriðjudaginn á vegum bandaríska sendiráðsins á Íslandi. Í þétt setinni Kvosinni sögðu þeir frá sjálfum sér og ræddu við nemendur um forsetakosningarnar í nóvember. Í framhaldi af því svöruðu þeir fyrirspurnum áhugasamra nemenda. Við fengum svipaða heimsókn fyrir fjórum árum sem tókst afar vel.
Scott Klug er almannatengslastjóri lögfræðifyrirtækisins Foley & Lardner LLP sem starfar í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Þar á undan var hann í átta ár fulltrúi Wisconsin fyrir hönd repúblikana í bandaríska fulltrúaþinginu. Hann er sérfróður um þróun samskiptaáætlana, bandaríska kosningaferlið, góða stjórnunarhætti, orkustefnu og heilbrigðisþjónustu. Hann hefur sterk tengsl við lykilaðila í stjórnsýslu sem og við leiðtoga fulltrúaþingsins og öldungardeildarþingsins.
Larry LaRocco er stofnandi og aðalstjórnandi LaRocco & Associates Inc. sem er fyrirtæki í almannatengslum og stjórnsýslusamskiptum. Áður sat hann tvö kjörtímabil í fulltrúaþinginu sem fulltrúi demókrata frá Idaho. Þar sat hann í banka- og innanríkisnefndum fulltrúaþingsins. Eftir þingsetuna starfaði hann sem framkvæmdastjóri Samtaka bandarískra bankamanna.
Nemendur og kennarar hlýddu á mál þessara ágætu gesta af athygli og lögðu fyrir þá spurningar. Fundurinn var fróðlegur og opnaði sýn inn í það, sem hæst fer í fréttum þessa dagana vestan úr heimi. Enskukennarar skólans héldu utan um þessa dagskrá og sögðu að í samtölum við gestina að fundi loknum hefðu þeir verið afar ánægðir með spurningar sem fyrir þá voru lagðar og himinlifandi yfir góðum fundi í MA.
Menntaskólinn á Akureyri var eini framhaldsskólinn sem þeir félagar heimsóttu í þessari yfirreið, héðan héldu þeir í Háskólann á Akureyri.