Síðasti söngsalurinn 2009
Síðasti söngsalurinn 2009

Í dag er fyrsti dagur vorannarprófa í Menntaskólanum á Akureyri. Síðasti reglulegur prófdagur er 5. júní, en sjúkra- og endurtökupróf eru dagana 8. - 12. júní. Skólanum verður slitið og stúdentar brautskráðir við hátíðlega athöfn í Íþróttahöllinni að morgni 17. júní.

Dimissio var í afskaplega góðu veðri að morgni miðvikudags. Stúdentsefni komu í skólann og höfðu síðasta söngsalinn sinn á Sal í Gamla skóla við undirleik Axels Inga Árnasonar konsertmeistara og nýkjörins formanns Hugins. Síðan báru fyrstubekkingar stúdentsefnin út úr húsi á gullstóli og þar tók við þrautabraut og kveðja stjórnar Hugins. Þegar stúdentsefni voru komin i skrautlega búninga sína biðu þeirra grillaðar pylsur hjá matreiðslumeisturum Mötuneytis MA og myndataka Páls ljósmyndara Pálssonar áður en tekið var til að kveðja kennara, fyrst í Kvosinni og síðan var farið á dráttarvélum og heyvögnum og allmargir kennarar kvaddir heima. Um kvöldið var kaffisamsæti í Kvosinni í umsjá skólafélagsins Hugins og þar var dagskrá í tali og tónum. Allur þessi fögnuður fór afar vel fram.

En nú tekur alvaran við og prófannir næstu tvær vikurnar.

.