- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Leikfélag Menntaskólans á Akureyri sýnir þessa dagana söngleikinn Galdrakarlinn í Oz í Menningarhúsinu Hofi. Mikill undirbúningur býr að baki uppfærslu LMA á þessari sígildu sögu og aðdragandinn orðinn býsna langur. Leikfélagið tilkynnti um val á sýningu í september síðastliðnum og fljótlega var opnað fyrir umsóknir í prufur. Æfingar hófust í kjölfarið og stóðu yfir nær sleitulaust þar til kom að frumsýningu 14. mars sl.
Söngleikurinn er byggður á frægri barnabók Lyman Frank Baum sem kom út aldamótaárið 1900, The Wonderful Wizard of Oz . Sagan fjallar um Dórótheu sem verður fyrir því óhappi að fellibylur feykir húsinu hennar til framandi töfralands. Hún og hundurinn Tótó vilja komast aftur heim og því leitar Dóróthea til Galdrakarlsins í Oz með von um að hann geti aðstoðað. Á leiðinni hittir hún heilalausu Fuglahræðuna, huglausa Ljónið og hjartalausa Tinkarlinn. Saman halda þau í mikla ævintýraferð.
Margar hendur vinna létt verk segir einhvers staðar. Uppsetning LMA er vissulega ekki létt verk en engu að síður hefur nemendum og öðrum hlutaðeigandi tekist að setja á fjalirnar lifandi og skemmtilegt leikverk sem sómi er af. Þetta tekst í krafti fjöldans þar sem öll sem að sýningunni koma leggja sitt af mörkum með metnað og gleði að vopni. Hátt í 100 nemendur koma að sýningunni með einum eða öðrum hætti. Auk leikara má nefna dansara og teymi sem sjá um markaðssetningu förðun, búninga, tæknimál og leikmynd. Egill Andrason leikstýrir og aðstoðarleikstjórar eru Stormur Thoroddsen og Agnes Inga Eldjárn. Danshöfundar eru Ásta María Viðarsdóttir og Auður Gná Sigurðardóttir og tónlistarstjórnendur eru þær Helga Björg Kjartansdóttir og Viktoría Sól Hjaltadóttir.
Óhætt er að segja að góður rómur hafi verið gerður að sýningu LMA ef marka má skrif sýningargesta í héraðsmiðlum og á samfélagsmiðlum undanfarna daga.
„Ég er eiginlega ennþá orðlaus yfir gæðum þessarar sýningar, svo það sé sagt strax og ekki skafið af því. Hæfileikum unga fólksins sem tók þátt í þessu eru sennilega engin takmörk sett.“
Rakel Hinriksdóttir birtir á akureyri.net.
„Allir aðalleikarar skila sínu með mikilli prýði, túlka persónur af gleði, næmni og um leið ná þau vel til áheyrenda. Söngur virkilega vel fluttur og sviðshreyfingar fumlausar og öruggar. Dansarar og aðrir leikarar gera mjög vel. Þetta skilar kröftugri og sannfærandi heildarmynd verksins.“
Elsa María Guðmundsdóttir birtir á kaffið.is.
„Ég gæti sagt hér að þetta verði ekki toppað, en LMA hefur svo oft slegið það spil úr hendi mér. Þess í stað vil ég óska þessu unga og frábæra listafólki til hamingju með stórkostlega sýningu og vona að verði húsfyllir alla daga, hvort sem er um miðja dag eða kvöld. Húrra LMA!“
Sverrir Páll Erlendsson birtir á Facebook.com.
Í þessum töluðum orðum eru tvær sýningar að baki auk frumsýningar. Áætlaður heildarfjöldi sýninga er sex og því enn tækifæri fyrir áhugasama að tryggja sér miða á þessa skemmtilegu sýningu LMA. Þrjár síðustu sýningarnar verða föstudaginn 21. mars kl 20:00 og sunnudaginn 6. apríl klukkan 13:00 og 17:00. Hægt er að panta miða á tix.is. Góða skemmtun.