Þorbjörg Þorsteinsdóttir fyrrverandi skrifstofustjóri í MA handleikur umrætt sparistell við undirbún…
Þorbjörg Þorsteinsdóttir fyrrverandi skrifstofustjóri í MA handleikur umrætt sparistell við undirbúning á jólakaffi í desember 2022. Á innfelldu myndinni má sjá fundargerð Gagnfræðaskólans frá árinu 1926.

Jólakaffi starfsfólks MA á aðventu er tæplega 70 ára gömul hefð. Hér áður fyrr var opinber dagur jólakaffiboðsins 19. desember, fæðingardagur Þórarins Björnssonar (1905-1968) fyrrverandi skólameistara. Boðið var upp á fyrsta jólakaffið árið 1955 á 50 ára afmælisdegi Þórarins. Nú sem fyrr kemur núverandi og fyrrverandi starfsfólk skólans saman ásamt mökum að kvöldlagi á aðventu í Gamla skóla til að skrafa og njóta hátíðlegra veitinga.

Ilmurinn af flatbrauði með hangikjöti og kaffiangan, klæðin fín og kaffistellið skapa hátíðlega stemningu fyrir þau sem boðið sækja. Stellið er sjaldan dregið fram og því um sannkallað sparistell að ræða. Það er eitthvað notalegt við það að súpa heitt súkkulaði af bolla sem dreginn hefur verið fram af sama hátíðlega tilefninu áratugum saman. Drekka í sig söguna. Stellið er pólskt af gerðinni Chodziez, ljósdrapplitað með ljósrauðum rósagreinum og gyllingu. Chodziez á sér langa sögu en rekja má hana aftur til ársins 1852. En hversu gamalt er sparistellið í Menntaskólanum á Akureyri? Mögulega leynist svarið í gamalli fundargerð frá kennarafundi Gagnfræðaskólans þann 4. febrúar árið 1926. Þáverandi skólameistari Sigurður Guðmundsson lagði fram tillögu á fundinum þess efnis að skólinn hætti að bjóða til kaffisamsætis nema fjárfest yrði í „bollapörum og öðrum glervarningi“. Skólinn væri hættur að fá bollastell að láni í bænum eins og tíðkast hefði og kaffiboðum í skólanum væri því sjálfhætt. „Lagði skólameistari til, að varið væri úr skólasjóði kr. 180,00 til kaupa á 120 bollapörum og kökudiskum, til þess að nota í kaffisamsætum heimavistar og skólans.“ Tillagan var samþykkt af öllum viðstöddum. Undir fundargerðina skrifa auk Sigurðar þeir Árni Þorvaldsson, Brynleifur Tobíasson og Guðmundur G. Bárðarson.

Fundargerðin rímar við stöðuna í dag því stellið samanstendur af bollapörum og kökudiskum. Þá hefur nýleg talning á diskunum leitt í ljós að þeir eru 130 talsins sem er ekki fjarri fjöldanum sem tilgreindur er í fundargerðinni. Á hinn bóginn virðast heimildir á veraldarvefnum gefa til kynna að Chodziez hafi tekið vörumerkið sem brennt er á sparistellið í notkun árið 1947. Velta má fyrir sér hvort það hafi verið tekið í notkun á aðventu árið 1955 þegar hefðin hófst. Þó nákvæmur aldur liggi ekki fyrir er ljóst að sparistellið í MA er órjúfanlegur hluti af langri hefð í aðdraganda jóla.