MA
MA

Nú eru liðin 110 ár síðan skóli var settur í hinu myndarlega, nýja skólahúsi á Eyrarlandstúninu, nærri Brekkubrúninni. Þetta timburhús, kjallari, tvær hæðir og ris, var reist sumarið 1904 og skólastarfið hófst 4. október sama ár. Þetta hús er í daglegu tali kallað Gamli skóli, en það heiti kom þó ekki upp fyrr en ný skólahús risu eftir miðja öldina. Þá hét skólinn Gagnfræðaskólinn á Akureyri og hafði flust til Akureyrar frá Möðruvöllum í Hörgárdal, eftir að skólahús þar brunnu árið 1902. Skólinn hafði starfað þar frá 1880, þegar skólahald var endurvakið utan Reykjavíkur.

Margt er á huldu um byggingu Gamla skóla og ekki hafa fundist myndir né frásagnir frá byggingartíma hússins. Sigtryggur Jónsson var byggingarmeistari og undirritaði teikningar af húsinu 26. apríl 1904. Mælt var fyrir húsi og lóð 11. maí 1904, hornsteinn lagður 4. júní 1904 og húsið tekið í notkun 4. október, tæpum fimm mánuðum eftir að fyrsta skóflustungan var tekin. Þetta var veglegasta skólahús á Íslandi á þeim tíma, en skýringin á stuttum byggingartíma er að húsið mun hafa komið meira og minna tilsniðið frá Noregi og verk smiðanna hér að mörgu leyti að setja viðina saman eftir teikningum. Húsið er í norskum stíl, svokallað Sveitserhús. Elsta myndin af húsinu er frá búfjársýningu, sem haldin var á skólalóðinni 26. maí 1905, og þar sést í húsið timburklætt og skrautlaust.

MA skólalóð. Mynd: Skúli Jón Sigurðarson 2014Skólinn var í upphafi jöfnum höndum dagskóli og heimili flestra nemendanna, sem komu í byrjun október og fóru um miðjan júní. Sjaldgæft var að þeir færu heim um jól og páska. Heimavist var á háalofti og í flestum stofum á annarri hæð en kennslustofur á fyrstu hæð og mötuneyti og snyrtingar í kjallaranum. Samkomusalur var á 2. hæð, nú Norðursalur, Miðsalur og Suðursalur. Þar hafa í gegnum tíðina verið haldnir margir tónleikar því þar er einstakur hljómburður. Þarna byrjaði hinn frægi MA-kvartett fyrir meira en 80 árum og þetta var eini samkomusalur nemenda allt til 1969.

Fyrsta skólaárið voru nemendur 68, 60 strákar og 8 stúlkur. Núna í haust, 110 árum síðar, eru nemendurnir alls 748, strákarnir eru 271 en stelpurnar 477, svo auðséð er að margt hefur breyst á löngum tíma. Flestir nemendur voru haustið 1904 Norðlendingar en nokkrir Vestfirðingar líka. Þingeyskir bændasynir voru áberandi, meðal annarra fjórir af þeim sem voru hæstir á prófum fyrsta árið. Einn þeirra var Jónas Jónsson frá Hriflu, en hann átti síðar drýgstan þátt í að skólinn varð Menntaskólinn á Akureyri árið 1930, með fullum réttindum til að brautskrá stúdenta. Skólameistari fyrstu árin var Jón Hjaltalín, en hann hafði verið skólastjóri á Möðruvöllum. 1908 tók við starfinu Stefán Stefánsson, en stytta af honum er í Stefánslundi, milli Hóla og Heimavistar.

Þegar húsið var tekið í notkun 1904 var það tæplega fullgert, þótt það væri látið duga fyrstu árin og jafnvel fyrstu tvo áratugina. Upphaflega var húsið með viðarklæðningu, en viðurinn rýrnaði og það hélt varla vindi. Lélegt járn var á þaki og þakplötur týndust í hvassviðri og þá lak. Það var reynt að bæta þetta eftir föngum, en allsherjaraðgerð á húsinu varð ekki fyrr en á árunum 1922-1926. Fram að því höfðu verið ber timburgólf en þá var húsið lagt gólfdúkum. Þá var húsið einnig pappaklætt að utan og bárujárn neglt á það, eins og nú má sjá.

Stúdentsefni syngja á Gamla Sal 23. maí 2014Fyrstu áratugina þurftu nemendur og kennarar að sæta sig við útikamar sem snyrtingu og það var ekki fyrr en 1926 sem sett voru upp klósett. Þau voru – og eru enn – eingöngu í kjallaranum. Sá sem þurfti að pissa eða bursta tennur og bjó uppi á háalofti þurfti að fara niður í kjallara til að gera það. Í kjallaranum var líka kerlaug (baðkar) fyrir nemendur - og af því að það þurfti að fara sparlega með eld og vatn hafði hver heimavistarnemandi leyfi til að fara í kerlaugina einu sinni í mánuði. Í íþróttahúsi skólans, sem reist var að húsabaki ári síðar en skólahúsið, voru svokölluð skúraböð (sturtur), og þar áttu nemendur að steypa yfir sig einni skúr, sem eigi skyldi vara lengur en 12 sekúndur, eins og fram kemur í Baðreglum skólans frá árinu 1906.

Á áttunda áratugnum voru uppi hugmyndir um að rífa þessi gömlu og slitnu hús og reisa glæsilegar steinsteypubyggingar í þeirra stað. Sem betur fer var þeim áætlunum mætt með hugsjónum náttúruverndar og húsaverndar og því stendur gamla Menntaskólahúsið enn sem eitt af einkennum Akureyrarbæjar, að 110 árum liðnum, fullnýtt sem kennslu- og skrifstofuhús, og er ásamt Möðruvöllum og Hólum vinnustaður rúmlega átta hundruð manna.

Í vor kom út á vegum skólans og bókaútgáfunnar Völuspár bókin Lifandi húsið, en þar fjallar Tryggvi Gíslason  fyrrum skólameistari í máli og myndum um þætti úr sögu Gamla skóla.

Í gegnum tíðina hefur Gamli skóli verið miklu meira og allt annað en hús. Hann hefur eignað sér stað í hjörtum þeirra þúsunda nemenda sem hafa átt þar góð og mótandi ár í lífi sínu. Á hverju vori um skólaslit koma hundruð gamalla nemenda í heimsókn í gamla skólann sinn, ganga um húsið, rifja upp minningar og jafnvel brak í gólfum, strjúka yfir veggina með draum í augum, skoða listaverk og ljósmyndir og verða ungir enn á ný.