Á geðveikum sal í Kvosinni
Á geðveikum sal í Kvosinni

Hátíðardagskrá var í Kvosinni eftir hádegi í dag í tilefni að því að ýtt var á flot næsta áfanga í heilsueflandi framhaldsskóla, geðrækt.

Dagskráin var töluverð. Í upphafi var brugðið upp söngsal í gömlum stíl undir forystu kennara, sem sungu nokkur gömul söngsalarlög án undirleiks og allir stóðu í fæturna. Inn í þá dagskrá skaust Magni Ásgeirsson og renndi salnum öllum upp í rokki.

Næsti gestur var Hjalti Jónsson sálfræðingur VMA og gamall nemandi MA. Hann ræddi um líðan nemenda í skólum og hversu nauðsynlegt er að láta vita af því þegar manni líður ekki vel og fá vandann leystan í stað þess að láta hann vaxa. Hann minntist á nausðyn góðra og einlægra samkipta vina og fjölskyldu og ekki síður á vinnustað eins og skóla. Einkum og sér í lagi að forðast að búa til vandamál með þögn heldur að tala saman horfa frekar á það góða og bjarta sem framundan bíður. Hann benti á að í skólum væru margar leiðir til að leita lausna á vanda sínum, en Menntaskólinn og Verkmenntaskólinn hafa nú báðir á sínum snærum sálfræðinga til viðbótar við námsráðgjafa, stjórnendur og annað starfsfólk.

Næst var hreyfingin og Eva Reykjalín Zumbadrottning Akureryrar stjórnaði heilmiklu hreyfibatteríi í þessum 700 manna sal. Að því loknu var stutt ræðukeppni milli kennara og nemenda og örstutt Útsvarskeppni með látbragðsleik. Í blálokin var svo yndisfagur söngur fimm stúlkna úr nemendahópnum. það voru Sigrún Mary McCormick, Eva Laufey Eggertsdóttir, Aldís Bergsveinsdóttir, Kamilla Dóra Jónsdóttir og Steinunn Atladóttir.

Á meðan á þessu stóð var gestum boðið upp á ferskar og nýuppteknar gulrætur og gulrófur.

Hér er heilmikið safn mynda af þessum gleðisal geðræktarinnar.