- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Góðir gestir koma hingað í skólann af og til - meðal annarra gestir frá öðrum löndum. Það er skemmtilegt.
Í síðustu viku kom hingað hópur um það bil 20 nemenda úr Latin School of Chicago, en nemendahópar þaðan hafa komið hingað nokkrum sinnum og í för með þeim kennarar sem orðnir eru sannir Íslandsvinir, annar þeirra Steven Coberly og hinn Ken Bowen, og hann á ættir að rekja í Húnaþing. Meðal efnis á dagskrá þeirra var Mývatnssveitarferð með Jónasi Helgasyni, en auk þess fóru krakkarnir í tíma með nemendum hér.
Í morgun kom svo hópur úr Menntaskólanum í Haslev í Danmörku, 24 nemendur og 2 kennarar. Hópurinn lenti á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi og kom norður í nótt eftir að hafa tafist töluvert í norðurljósaflóði í Húnaþingi og í Skagafirði. Þessir nemendur eru á félagsvísindasviði og í dag fara þeir víða um bæinn og leggja alls kyns spurningar fyrir fólk. Á morgun verður farið í Mývatnssveitarferð með Jónasi Helgasyni, en náfrændi Jónasar, Færeyingurinn Flóvin Tor Næs er annar kennaranna í för með Haslevhópnum. Hinn er Peter Baslev Nielsen.
Og af því minnst var á Húnaþing er gaman að geta þess að af þeim slóðum kom hingað stór hópur nemenda í dag að kynna sér námið í Menntaskólanum á Akureyri.
Myndin var tekin þegar verið var að búa nemendur undir bæjarferðina í dag, eftir að hafa farið í tíma með nemendum hér í MA. Þarna eru Flóvin, Jónas og Peter Nielsen með nemendahópnum í Kvosinni