- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Nemendur þriggja bekkja á raungreinasviði MA sýndu í gær verkefni sem unnin hafa verið í samkeppni um að taka þátt í samskiptum skóla á Akureyri og í Grænlandi. Það eru bekkirnir 3. T, U og Y sem hafa unnið að þessum umdirbúningsverkefnum en Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri og Arngrímur Jóhannsson flugstjóri áttu frumkvæðið að verkefninu sem felur í sér samskipti Menntaskólans á Akureyri og Menntaskólans í Nuuk. Í Menntaskólanum á Akureyri hafa Guðjón Andri Gylfason og Þórhildur Björnsdóttir haldið utan um verkefnið en margir fyrirlesarar, meðal annars úr Háskólanum á Akureyri, hafa komið við sögu.
Í rauninni er um að ræða samkeppni milli umræddra þriggja bekkja hver þeirra fer í náms- og kynnisferð til Grænlands á vordögum, en hópur frá Nuuk mun endurgjalda heimsóknina á næsta skólaári. Til þess að skera úr um það hver bekkjanna hreppi hnossið var kölluð til dómnefnd. Í henni sitja Ragnar Axelsson ljósmyndari, Þórhildur Ólafsdóttir fréttamaður RÚV og Sverrir Páll Erlendsson menntaskólakennari.
Skemmst er frá því að segja að verkefnin, sem voru mjög ólík eru öll mjög góð, mikil heimildavinna liggur að baki þeim og vel hefur verið unnið úr þeim þótt með ólíkum hætti sé. Allir hóparnir kynntu verk sín á sviði. Einn hópurinn lagði fram afar glæsilegt kynningarrit um löndin tvö og sýndi myndband með stuttum könnunarviðtölum. Annar hópurinn sýndi meðal annars þjóðbúninga landanna og ýmiss konar muni sem sýna menningu þeirra og lagði að auki fram myndband með stuttum og löngum viðtölum auk módels af löndunum. Sá þriðji nýtti sér nútúmatæknina aðallega og setti sitt verkefni upp sem vefsíðu og myndabók.
Dómnefndin tók sér góðan tíma til að vega og meta verkefnin með fulltrúum bekkjanna en tókst ekki að komast að niðurstöðu að bragði, og það var einnig mál gesta, sem komu og fylgdust með kynningunum, að dómnefndin ætti úr vöndu að ráða. Nefndin tók sér frest til mánudags til að velja þann bekk sem telja verður fremstan meðal jafningja.