Árshátíð 2010 Kór MA
Árshátíð 2010 Kór MA

Árshátíð MA var haldin í stjörnuprýddum sal Íþróttahallarinnar í gær. Á níunda hundrað gesta sótti hátíðina, fjölbreyttan kvöldverð og viðamikla dagskrá úr höndum nemenda skólans. Öll umsjón hátíðarinnar var í höndum stjórnar Hugins, skólafélags MA, en Bautinn sá að vanda um matseld.

Kór MA söng nokkur lög, en síðan tók veislustjórinn Darri Rafn Hólmarsson stjórnina í sínar hendur. Meðal skemmtiatriða má nefna tónlistaratriði Jóns Más Ásbjörnssonar og Árna Freys Jónssonar, annað tónlistaratriði í höndum Rakelar Sigurðardóttur og Stefáns Ernis Valmundarsonar með liðsstyrk Vals Guðnasonar. Óli Dagur Valtýsson formaður Hugins ávarpaði hátíðina og slíkt hið sama gerði heiðursgestur kvöldsins, Adolf Ingi Erlingsson. Nærvera hans varð enn eftirminnilegri er hann brá sér síðar í gervi Frank N. Furter. Hljómsveitin Axir og svipur lék einnig lag.

Athygli vöktu tvö stór atriði á gólfi hallarinnar, annars vegar mjög fjölmennt og fjölbreytilegt atriði dansfélagsins Príma og hins vegar atriði LMA, Leikfélags MA. Þá var sýnt alllangt atriði með stuttmyndaskotum og loks voru minni kvenna og karla, en þau fluttu Dagur Bollason og Guðrún Halla Guðnadóttir.

Árshátíð MA er mikil sparifatahátíð og þar fara fremst nemendur 4. bekkjar þar sem stúlkur eru jafnan allar í íslenskum búningi, langoftast upphlut, stundum peysufötum og stöku sinnum skautbúningi, en strákarnir eru flestir klæddir hátíðabúningnum íslenska eða eldri þjóðbúningum.

Að lokinni hinni viðamiklu hátíðardagskrá voru miklar myndatökur af einstaklingum og hópum og dans í báðum sölum Hallarinnar fram á nótt.

Svolítið myndasafn frá hátíðinni sést ef smellt er hér.