Sigurvegarar í Söngkeppni MA 2013
Sigurvegarar í Söngkeppni MA 2013

Lilja Sif Magnúsdóttir verður fulltrúi MA í Söngkeppni framhaldsskólanna eftir sigur sinn í glæsilegri Söngkeppni MA sem fram fór í Hofi í kvöld. Húsfyllir var í Hofi, setið í hverju sæti í Hamraborg og vel það og auk þess fylgdist fjöldi manna með keppninni á tjaldi í litla salnum, Hömrum. Myndir úr keppninni eru hér.

Það var einróma umsögn dómara keppninnar, Láru Sóleyjar Jóhannsdóttur, Óskars Péturssonar og Rúnars Eff Rúnarssonar, að þau hefðu aldrei fyrr dæmt í eins vandaðri og jafnri keppni og þau hrósuðu nemendum og skólanum sérstaklega fyrir það. Það væri einstakt að finna i einum skóla svona marga efnilega söngvara og jafnframt hljóðfæraleikara eins og þarna hefðu komið fram. Þau sögðu að erfitt hefði verið að raða í þrjú efstu sætin því svo margir hefðu komið þar til greina, en dómur hefði þó fallið sem hér segir:

Í þriðja sæti varð Karlotta Sigurðardóttir í 1. bekk, en hún flutti eigið lag og texta, Skuggi hugsana, og lék sjálf undir á píanó. Í öðru sætinu varð Hákon Guðni Hjartarson í 3. bekk, en hann flutti Ed Sheeran-lagið Give me Love. Sigurvegarinn að dómi dómnefndar og jafnframt sigurvegari í símakosningu tónleikagesta var svo Lilja Sif Magnúsdóttir í 4. bekk, en hún flutti Adele-lagið One and Only.

Keppnin var afar glæsileg á sviði þar sem Exton-menn sáu um ljós og hljóð, en sérstakt lof fékk Húsbandið, hljómsveit nemenda, sem lék undir í næstum öllum atriðunum. Þar sat við píanóið Bjarni Karlsson konsertmeistari MA. Á gítarana spiluðu Anton Bjarki Jóhannesson og Jóhannes Ágúst Sigurjónsson. Bassaleikarinn var Stefán Oddur Hrafnsson. Við trommurnar var sá eini sem ekki er í MA, Þorvaldur Yngvi Schiöth.

Á myndinni eru sigurvegararnir. Lengst til vinstri en Karlotta, þá kemur Lilja Sif og loks Hákon Guðni, en með honum eru fiðluleikararnir sem léku með honum.