- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Gleðilegan fullveldisdag. Að sjálfsögðu er flaggað í tilefni dagsins. Gamli skóli er í appelsínugulum bjarma þessa dagana til að minna á 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Í ár beinist átakið að áhrifum COVID-19 á kynbundið ofbeldi. Soroptimistaklúbbur Akureyrar, Zontaklúbbur Akureyrar og Zontaklúbburinn Þórunn hyrna eru á meðal þeirra sem kynnt hafa átakið.
Við skulum halda daginn hátíðlegan og lífga upp á tilveruna. Minnumst þess jafnframt að frelsið er ekki sjálfsagður hlutur. Leyfum nemanda veturinn 1927-1928 að eiga lokaorðin. Þau koma fyrir í greininni Fullveldisdagurinn sem birtist í skólablaðinu Muninn þann 3. desember 1928.
Ísland er aftur frjálst! Aldrei mun nokkurri fregn er borist hefur um Íslands bygðir, verið tekið með slíkri gleði sem þessari. Það var sem fargi væri ljett af brjóstum manna. Loksins, loksins! andvarpaði hin kúgaða þjóð. Síðan eru tíu ár. Minningu fullveldisins höfum vjer helgað einn dag á ári hverju. Þá hvílumst vjer og borðum góðan mat.
Um þessi tíu frelsisár hafa orðið allmiklar breytingar á högum þjóðarinnar. Ýmiskonar umbætur og framfarir hafa komist á þrátt fyrir fátækt, fámenni og aðra örðugleika og virðist mega gera sjer vonir um nýja blómgunaröld ef vel er á haldið. En ennþá er sjálfstæði voru þó hætta búin og ekki er loku fyrir það skotið að þjóðin eigi eftir að vakna af sínu íslenska tómlæti í erlendum fjötrum.
G.Á.