Hraðlínukynning 2010
Hraðlínukynning 2010

Í gær var í Kvosinni kynning á námi Menntaskólans á Akureyri á hraðlínu almennrar brautar, sem er sérsniðin að nemendum sem kjósa að koma í skólann rakleitt úr 9. bekk grunnskóla. Töluverður hópur 9. bekkinga kom á kynninguna með forráðamönnum sínum.

Skólastjórnendur ávörpuðu gesti en Alma Oddgeirsdóttir brautarstjóri almennrar brautar og Hildur Hauksdóttir umsjónarkennari með Ölmu gerðu grein fyrir skólafyrirkomulaginu og þeim möguleikum sem felast í því fyrir hina ungu nemendur að koma í MA.

Fyrsti hópurinn sem flýtti námi sínu um eitt ár með því að koma úr 9. bekk á hraðlínu brautskráðist í vor leið og námsárangur þess fólks var afar góður. Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir sem var á hraðlínu og er að ljúka stúdentsprófi í vor lýsti því meðal annars hvernig umsjónin með bekknum og heimanámstímarnir hefðu stuðlað að góðum vinnubrögðum sem fólk hefði notið á seinni árum námsins. Tveir nemendur sem eru núna í 1. bekk á hraðlínu, Ásmundur Hálfdán Ásmundsson og Melkorka María Guðmundsdóttir, lýstu reynslu sinni af því að hoppa yfir 10. bekkinn, vera í MA á hraðlínu og búa á heimavistinni. Á hraðlínu eru nú 19 nemendur, en fjöldamörkin eru 15-20. Nemendur á hraðlínu koma nú víðar að en áður, allt frá Austfjörðum til Bandaríkjanna.

Að lokum var boðið upp á veitingar og þá var margt spjallað í framhaldi af því sem fram kom í hinni opinberu dagskrá.

.