Á fundi með menntamálaráðherra grænlensku heimstjórnarinnar
Á fundi með menntamálaráðherra grænlensku heimstjórnarinnar

Mennta- og menningarmálaráðherra grænlensku landsstjórnarinnar, Tommy Marø, heimsótti Menntaskólann á Akureyri í dag. Heimsóknin var liður í mikilli endurskoðun á grænlenska menntakerfinu. Í för með ráðherranum voru Kunuunnguaq Fleischer, ráðgjafi heimastjórnarinnar og Vittus Qujaukitsoq, ritari ráðherra.

Í kjölfar nýafstaðinna kosninga á Grænlandi fer nú fram mikil endurskoðun og uppstokkun á mennta- og menningarstarfi, meðal annars með það að markmiði að vekja áhuga grænlenskra ungmenna á eigin menningu og tungu, sem lið í því metnaðarfulla verkefni að leiða þjóðina til sjálfstæðis. Einn liður í þessu starfi er að freista þess að sérhanna grænlenskt skólakerfi og sníða það að grænlenskum aðstæðum í stað þess að laga hið danska kerfi að aðstæðum á Grænlandi. Þess vegna hefur verið höfð hliðsjón af inúítasamfélögum í öðrum löndum og einnig leitað fyrirmynda hjá norðlægri smáþjóð, eins og Íslendingar eru. Sendinefndin hefur þegar heimsótt Fjölbrautaskólann á Akranesi, kom í dag í Menntaskólann á Akureyri og ætlaði einnig að líta inn í Myndlistaskólann og á svo fund með menntamálaráðherra í Reykjavík á morgun. Fundinn með grænlensku gestunum í dag sátu Jón Már Héðinsson skólameistari, Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari og Hildur Hauksdóttir, brautarstjóri almennrar námsbrautar.

Að sögn Hildar spurðu gestirnir mjög um starfsemi og rekstur Menntaskólans og hrifust af mörgu í starfsemi hans. Sérstaklega voru þeir áhugasamir um hraðlínu almennrar brautar, sem gefur framúrskarandi námsmönnum kost á að koma rakleitt í Menntaskólann úr 9. bekk. Einnig vakti athygli þeirra starf Menntaskólans að því að draga úr brottfalli í skólanum án þess að slá á námskröfur, en brottfall úr námi hefur lengi verið mikið vandamál í grænlenskum skólum.

Á fundinum með grænlenska ráðherranum var rætt um að leita leið til samstarfs milli grænlenska menntamálaráðuneytisins Menntaskólans á Akureyri og standa vonir til að svo geti orðið. Að fundi loknum fóru gestirnir í skoðunarferð um skólann.

.