Heimsókn í Drift
Heimsókn í Drift

Allur þriðji bekkur tekur áfanga í Náms- og starfsvali á vorönn. Kennarar áfangans eru Alma Oddgeirsdóttir, Rannveig Ármannsdóttir og Sandra Sif Ragnarsdóttir. Í áfanganum kynna nemendur sér m.a. nám og störf að loknum framhaldsskóla og fjallað er um helstu þætti er varða náms- og starfsval. Nemendur fara í starfskynningar á Norðurlandi og sækja Háskóladaginn í HA. Auk þess er fjallað um ýmis hagnýt atriði eins og fjármálalæsi, gerð ferilskráa og ýmislegt varðandi brautskráningu.

Nemendur fara einnig í heimsóknir og fá heimsóknir. Í síðustu viku fór t.d. allur árgangurinn í heimsókn í Drift í tveimur hollum ásamt kennurum sínum og hlýddi þar á fyrirlestur um nýsköpun og frumkvöðla. Þetta var mjög áhugaverð heimsókn að sögn kennara og nemendur spurðu mikils. Í þessari viku fengu nemendur kynningar frá Eimi. Þar var fjallað um bætta nýtingu auðlinda á Norðurlandi út frá aukinni verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun.

Fulltrúar Íslandsbanka hafa einnig verið með fjármálafræðslu. Þau fjölluðu um þau tímamót að verða fjárráða og hvað breytist við það. Einnig fjallað um Menntasjóð námsmanna og séreignarsparnað o.fl.

Háskóladagurinn er einnig hluti af Náms- og starfsvalinu. Hann verður 12. mars í HA milli kl. 11 og 13 og þangað fer allur þriðji bekkur.