- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Menntaskólanum á Akureyri verður slitið með athöfn í Íþróttahöllinni á Akureyri föstudaginn 17. júní. Athöfnin hefst klukkan 10, en hús stendur opið frá klukkan 9.
Að þessu sinni verða brautskráðir rúmlega 150 stúdentar
Að vanda munu tónlistarmenn úr röðum nýstúdenta leika við athöfnina, skólameistari flytur skólaslitaræðu og brautskráir stúdenta, fulltrúar afmælisárganga flytja ávörp og kveðjur og fulltrúi nýstúdenta ávarpar samkomuna.
Að athöfn lokinni verða myndatökur. Eins og í fyrra verða þær í þrepunum sunnan undir Skólatorginu, þar sem mætast Möðruvellir og Hólar. Þessi þrep reynast vel sem útikennslustofa á góðviðrisdögum
Stúdentahópurinn 2015
Samhliða myndatökunum verður opið hús í MA til klukkan 15 síðdegis. Þar gefst gestum og gangandi færi á að skoða skólahúsin, rifja upp gömul kynni og myndir, skoða námsverkefni nemenda og svala sér á kaffi og kökum. Þarna mætir að jafnaði mikill fjöldi gesta.
Að kvöldi 17. júní er hátíðarsamkoma nýstúdenta í Íþróttahöllinni þar sem þeir koma með fjölskyldum sínum og vinum til borðhalds og þar munu stúdentarnir einnig flytja ýmis skemmtiatriði. Stúdentarnir fara að því loknu í bæinn og dansa á Torginu um klukkan 23.00, en nýstúdentaball er síðan í Höllinni fram eftir nóttu með Páli Óskari.
Gamlir nemendur koma hundruðum saman til Akureyrar til að fagna stúdentsafmælum sem standa á heilum tug og hálfum og setja svip á bæjarlífið dagana 14., 15. og 16. júní. Þeir fara gjarnan í dagsferðir um nágrennið, óvissuferðir eru mjög í tísku þessi árin, og halda alls kyns fagnaði vítt og breitt um bæinn og sameinast svo á MA-hátíðinni í Íþróttahöllinni að kvöldi 16. júní. Þar verður borðhald og margvísleg skemmtidagskrá árganganna og dans með Páli Óskari..
Menntaskólinn á Akureyri sendir öllum gestum og velunnurum hátíðarkveðjur.