Menntaskólinn á Akureyri
Menntaskólinn á Akureyri

Haustið nálgast og fyrstu merki þess má sjá á gróðri. Í flestum skólum er vetrarstarf hafið, en Menntaskólinn á Akureyri verður settur á Sal skólans á Hólum föstudaginn 13. september klukkan 10.30. Allir nemendur og forráðamenn þeirra eru hvattir til að koma að skólasetningu, sérstaklega aðstandendur nýnema. Öllum nýnemum var sent bréf skólameistara í júní síðastliðnum. Þar eru upplýsingar sem rétt er að skoða og rifja upp áður en komið er í skólann.

Skrifstofur skólans eru opnar og starfsfólk og stjórnendur vinna að því að undirbúa vetrarstarfið. Einnig er unnið að margvíslegum framkvæmdum í húsum skólans, bæði viðhaldi og endurbótum. Þá er unnið að því að koma upp nýju tölvukerfi, þar sem stefnt er það því að einfalda og endurbæta alla tölvunotkun og auðvelda samskipti nemenda, kennara og stjórnenda. Nánari grein verður gerð fyrir því síðar.

Inna

Aðgangur nemenda að Innu, skráningakerfi skólans, verður opnaður 9. september. Þá geta nemendur séð stundaskrár sínar og bekki og síðan fylgst með skólasókn, einkunnum o.s.frv.

Bókalistar

Hér á forsíðu ma.is er tengillinn Bókalistar haustið 2013. Þar eru allar upplýsingar sem borist hafa frá kennurum um námsbækur á skólaárinu. Til þess að sjá hvaða bækur nemandi þarf að nota þarf hann að vita í hvaða áföngum hann er á hverri önn. Það er einfalt að finna með því að fara í Námið, velja sviðið, til dæmis Tungumála- og félagsgreinasvið, og þá kemur upp mynd þar sem námsreinarnar eru skráðar í vinstri dálki og heiti áfanganna á hverri önn. 1H er haustönn í 1. bekk - 1V er vorönn í 1. bekk og svo framvegis.

Nemendur sem hafa verið í fjarnámi í sumar munu fá senda greiðsluseðla frá skólanum í byrjun september.

Menntaskólinn á Akureyri hvetur alla nemendur sína til að nýta það sem eftir er af sumarleyfi til að búa sig vel undir farsælt skólastarf á vetrinum, sem nálgast óðfluga.