Langi gangur nýmálaður, dúklaus og myndalaus
Langi gangur nýmálaður, dúklaus og myndalaus

Skrifstofur Menntaskólans á Akureyri hafa verið opnaðar að loknum sumarleyfum starfsmanna. Þær eru opnar virka daga klukkan 9 – 14. Hægt er auk þess að hafa samband við skólann á skrifstofutíma í síma 455 1555 eða í tölvupósti ma@ma.is.

Í fjölmiðlum hefur verið sagt frá því að nemendum framhaldsskóla á Íslandi fækki. Svo er ekki í MA. Skráðir nemendur á komandi skólaári eru rúmlega 750, sem er ekki færra en nokkur undanfarin ár. Í 1. bekk eru skráðir um 230 nemendur, sem er í meira lagi.

Í sumar hefur verið unnið að ýmsum endurbótum, viðhaldi og viðgerðum í skólanum. Frárennsliskerfi á Möðruvöllum sem gaf sig undir vor hefur verið tekið í gegn og endurbætt, þak Gamla skóla hefur verið málað og á Langa gangi hefur gólf verið endurbætt auk þess sem veggir gangsins hafa verið málaðir, en það hefur ekki verið gert í einhverja áratugi. Segja má að Gamli skóli yngist smátt og smátt, en auk viðgerða á ganginum nú hafa á tveimur síðustu árin bæði stigahúsin verið endurgerð.

Í haust verða 110 ár liðin síðan skólastarf hófst í stórhýsinu á Brekkunni. Að því tilefni hefur skólinn í samvinnu við bókaútgáfuna Völupá gefið út bókina Lifandi húsið í samantekt Tryggva Gíslasonar fyrrum skólameistara, með textum og myndum. Bókin er fáanleg á skrifstofu skólans.

Skólinn verður settur 15. september næstkomandi, en vikuna á undan verða kennarar á námskeiðum og í undirbúningsstörfum fyrir haustönnina. Allar upplýsingar um skólann og skólafyrirkomulagið á að vera unnt að sjá hér á vefnum og nýnemum hefur verið sent nýnemabréf, sem einnig er aðgengilegt hér ef smellt er flýtihnapp efst til hægri á forsíðunni á ma.is