Það sést að haustið nálgast. Reynitrén við Hóla sýna það greinilega. Þar eru tré sem skipta litum á undrahraða einmitt um þetta leyti, eins og kvikni gul og græn ljós.

Mannaferðinar við skólann eru líka vaxandi, enda eru kennarar og starfsfólk í óðaönn að undirbúa upphaf skólaársins. Verið er að skipuleggja nám og kennslu, smíða nýja áfanga og endurskoða aðra. Miklar framkvæmdir hafa verið í skólahúsunum, meðal annars endurnýjaðar snyrtingar nemenda á Möðruvöllum, syðri stigagangurinn í Gamla skóla endursmíðaður og málaður, Meistarastofa máluð og dúklögð, lögnum breytt og loft málað á Langa gangi, lagfærð vinnustofa enskukennara í Gamla skóla og svo mætti lengur telja. Af þessum sökum eru líka óvenjumikil þrif svo allt verði klárt og kvitt þegar nemendur koma í skólann.

Á miðvikudag og fimmtudag í þessari viku eru vinnu- og námsdagar kennara og starfsfólks og skóli verður svo settur á föstudag klukkan 10.30.  Kynningarfundur með foreldrum nýnema verður strax á eftir.

Nú eiga allir nemendur og kennarar að vera komnir í samband við INNU og geta þá meðal annars séð stundaskrá sína. Kennsla hefst samkvæmt henni á mánudaginn 16. september klukkan 8.15. Busavígsla er svo ákveðin þriðjudaginn 17. september.

Á myndinni er haustboðinn rauði.