Heilsueflandi Salur
Heilsueflandi Salur

Í gær var blásið til fjölbreyttrar samkomu í Kvosinni til að stilla saman strengi skólasamfélagins í heilsueflingu. Hólmfríður Jóhannsdóttir forvarnafulltrúi skólans hélt utan um dagskrána sem var fjölbreytt og skemmtileg.

parcourÍ upphafi ræddi Hólmfríður við samkomugesti um heilsufar og nauðsyn þess að vera í góðu formi ef áföll kynnu að dynja yfir og tók dæmi af sjálfri sér, en gott form og tískuútlit væru ekki endilega hið sama. Því næst stukku fram á gólf nokkrir félagar úr parcour-klúbbi á Akureyri og sýndu ólíklegustu stökk og fimi við mikinn fögnuð áhorfenda. Kennarar voru drifnir upp á svið oftar en einu sinni til að vera með í hreyfisöngvum, sem allir tóku þátt í. Anna Hildur Guðmundsdóttir fulltrúi SÁÁ ávarpaði samkomuna og fjallaði um þann vanda sem fylgir notkun vímuefna og nauðsyn þess að ungt fólk fresti því í lengstu lög að neyta þeirra. Félagar úr Príma, dansfélagi MA, sýndu dansatriði og því næst var á dagskrá keppni milli kennara og liðs LMA í Leiktu betur, en þetta lið nemenda er í framhaldsskólakeppni í Leiktu betur í dag. Þetta var hin besta skemmtun. Og lokaatriðið var ekki af lakara taginu, þar sem Freyja Steindórsdóttir og Tumi Hrannar-Pálmason fluttu tvö lög með gítarundirleik.

Á myndinni hér til hliðar er lokastökkið hjá parcour-strákunum.

Miklu fleiri myndir úr Kvosinni á Facebook síðu skólans.